*

Viðtöl 10. mars 2017

Kýs að horfa á tækifærin

Eins og þekkt er orðið búa þau hjónin Bubbi og Hrafnhildur á fallegum stað við Meðalfellsvatn í Kjós. Hrafnhildur segir þau oft hafa hugsað til þess að einfalda lífið og flytja í borgina.

Kolbrún P. Helgadóttir

 „Ég er mikið spurð út í það hvort að við ætlum ekki að fara að flytja og í raun hef ég ekkert svar við því. Það mér mikilvægast að lifa í núinu og njóta. Ég gæti alveg horft meira á áskoranirnar sem fylgja því að búa hérna en ég kýs að horfa frekar á tækifærin og gjafirnar. Við búum í návist við íslenska náttúru eins og hún gerist best, eigum góða vini hérna, við erum með hænur í garðinum, ræktum blóm og grænmeti og dætur okkar elska þetta líf, rétt eins og við. Hér njóta sín allir og á sinn hátt og það gerir það þess virði að keyra lengra í vinnu en stelpurnar eru bara 15 mín í skólann sinn á Kjalarnesi.“ Sjálf gengur Hrafnhildur beint út í vatn og syndir í öllum veðrum allt árið um kring. „Á sumrin er svo mikið sport að hoppa í ár og vötn hér allt um kring. Ég er eiginlega orðin hálfgert vatnadýr,“segir Hrafnhildur og skellir uppúr.

Aðspurð hvort að hún stundi einhverja frekari hreyfingu segir hún að í sinni hreyfingu nýti hún náttúruna hvað helst og slái tvær flugur í einu höggi. „Ég stunda göngutúra og sjósund. Reglulega geri ég svo eitthvað skemmtilegt og út fyrir rammann eins og að fara á Beyonce dansnámskeið eins og ég gerði fyrir stuttu í Kramhúsinu. Hinsvegar hef ég sett mér markmið fyrir haustið og það er að hlaupa tíu kílómetra í maraþoninu með bróður mínum Hafsteini Erni í ágúst“

 Komin hringinn

Hrafnhildur segir að það ríki mikil hollusta á heimilinu sem að sé grunnurinn að góðu líkamlegu formi þeirra hjóna. „Bubbi bakar nánast öll brauðin á heimilinu og það eru auðvitað súrdeigsbrauð, eggin koma beint úr hænsnakofanum, kjötið beint frá býli, týnd eru 50 kg af berjum á hausti og notuð í morgunbústin fram á vor þannig að við erum mjög heilsusamleg en við leyfum okkur auðvitað nammidaga ég ég viðurkenni það bara fúslega að ég elska nammi. Hrafnhildur slær á létta strengi tengt þessu sjálfbæra og sjarmerandi sveitalífi sem að þau lifa og segir það í raun ekkert nýtt fyrir sér því að í grunninn sé hún ekkert annað en sveitastelpa.

„Já ég er sko sveitastelpa en öll sumur frá því ég var sex ára gömul fór ég í sveit austur á síðu í Hörglandskot til Önnu og Steina á Kirkjubæjarklaustri þar sem ég dvaldi öll sumur. Þar upplifði ég sannkallað vinnukonulíf og var líklegast með síðustu kynslóðunum sem var send í sveit. Ég var mætt á vorin í sauðburðinn til að taka á móti lömbum en svo var mitt verk að vakna klukkan sex til að ná í beljurnar, því næst tók við að fara í hænsnakofann að ná í egg, gefa dýrunum og önnur sveitaverk. Ég náði líka í skottið á alvöru bagga tínslu sem bý enn að í styrk og svo má ekki gleyma hestunum og smölun upp á heiðum.“  Í sveitinni segist Hrafnhildur hafa lært á lífið, tamið sér vinnusemi og það að treysta á sjálfan sig. „Ég held að þessi tími hafi að mörgu leyti gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag og mótað gildi mín sem ég svo ber áfram til barnanna minna.“ Má því segja að Hrafnhildur sé á vissan hátt komin hringinn í lífi sínu eða aftur heim. „Nú bý ég við aðstæður sem þekkti svo vel sem lítil stelpa og mér líkar það dásamlega eins og staðan er núna.“

 Lífið er allskonar 

Þó svo að lukkan virðist leika við fjölskylduna við Meðalfellsvatn í dag hefur lífið svo sannarlega verið fullt krefjandi verkefna. „Lífið er allskonar og það er líka hverfult. Á góðum tímum minni ég mig á að vera þakklát og sýna það þakklæti í verki  - á erfiðum tímum minni ég mig á að allt líður hjá, en það sem skiptir mestu máli er að horfa ekki í baksýnisspegilinn eða vera alltaf að horfa langt fram á veginn. Galdurinn við að vera hamingjusamur er að vera til í núinu og njóta allra litlu hlutanna í lífinu, sem virðast stundum svo sjálfsagðir, en eru í raun stærsta gjöfin."

Viðtalið við Hrafnhildi má lesa í heild sinni í nýjasta tölublaði Eftir vinnu, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.