*

Menning & listir 9. nóvember 2017

Laddi heldur myndlistasýningu

Frá tólf ára aldri hefur Ladda dreymt um að verða myndlistarmaður.

Kolbrún P. Helgadóttir

Laddi ákvað því fyrir nokkrum árum að láta þann draum verða að veruleika og setti sér markmið um að halda sýningu þegar hann yrði sjötugur. Hann tók sjálfan sig alvarlega og opnar nú sína fyrstu einkasýningu í dag í Smiðjunni, Listhúsi, Ármúla 36.

Snýst ekki um egóið

Laddi segir að sökum anna í leiklistinni í gegnum árin hafi hann meðvitað ýtt myndlistinni til hliðar og ákveðið að sinna henni í ellinni. Hann ákvað að taka sjálfan sig alvarlega og hófst því markvisst handa fyrir nokkrum árum að skapa svolítið rými til að byrja að mála.

„Ég væri mjög til í að sinna myndlistinni meira í framtíðinni og skemmta kannski aðeins minna, og einmitt þess vegna er maður nú að prófa að halda sýningu og sjá hvernig þetta leggst í fólk. Það er ekki bara vegna þess að egóið er svo mikið,“ segir hann og hlær. Þvert á móti viðurkennir Laddi að þetta sé svolítil opinberun á sjálfum sér. „Ég er sem betur fer búinn að fá svolitla æfingu en ég og konan mín, Sigríður Rut Thorarensen, héldum örlitla sýningu í fyrra.“

Spurður hvort þau hjónin hafi farið saman í listina segir Laddi konuna sína hafa byrjað að mála fyrir rúmum tíu árum síðan og komið sér skemmtilega á óvart og það hafi ýtt endanlega við honum að taka skrefið. Hann segir það dásamlegt að deila listinni með henni og að þau njóti þess að mála saman heima á stofuborðinu. „Það verður gaman að sjá hvernig tekið verður í verkin upp á það hvort ég er á einhverri braut sem virkar.“

Kannski álfar

Laddi notast helst við pappír í myndirnar sínar. „Ég byrja á að teikna myndirnar og mála þær svo með olíumálningu. Eins og ég var alltaf að gera í gamla daga, teikna andlit og svona en það er það sem ég er að gera, svona hálfgerðar portrett myndir, nema þetta eru kannski ekki alveg eðlileg andlit, þetta eru meira svona hálfgerðar fígúrur. Kannski má segja að þetta séu karakterar sem ég næ ekki að skapa á sviði og geta því aðeins orðið til á blaði.“ Laddi segist ekki hafa hugmynd um hvaðan hugmyndirnar að fígúrunum koma. „Þær koma bara til mín, kannski eru þetta álfar, hver veit.“

Sjálfur ólst Laddi upp í Hafnarfirði í nálægð við Hellisgerði sem er þekkt álfabyggð og þótti allt sem viðkom álfum hið eðlilegasta mál og var mikið talað um þá. Sjálfur segist Laddi þó ekki eiga skýrar minningar um álfa þó svo að trúin á þá sé svo sannarlega til staðar. Laddi segist ekki alltaf vera með fullmótaða hugmynd þegar hann hefst handa við nýja mynd.

„Ég byrjaði til dæmis á mynd um daginn sem var pínu klikkuð, svona eins og allt sem ég geri og mér leist satt best að segja ekkert á hvert hún var að fara svona í byrjun. svo gaf ég mér góðan tíma yfir henni og fór að nostra við hana og eftir nokkra daga horfðumst við í augu ég og þessi klikkaði karakter sem var kominn á blað og vorum bara mjög sáttir hvor við annan.“

Ladda líður vel í listinni og segir það vissulega ákveðið afrek að hafa látið verða að þessu. „Í dag get ég með sanni sagt að ég ætli að teikna og mála fram á grafarbakkann,“ segir listamaðurinn Laddi að lokum.