*

Hitt og þetta 4. desember 2013

Læðist páfinn út á nóttunni og hittir heimilisleysingja?

Frans páfi er grunaður um að fara út um miðjar nætur þar sem hann hittir heimilislaust fólk á götum Rómar.

Grunur leikur á því að Frans páfi (Franciscus, Jorge Mario Bergoglio) læðist út á nóttunni klæddur eins og óbreyttur prestur þar sem hann hittir heimilislaust fólk á götum Rómar.

Grunsemdir vöknuðu eftir viðtal við erkibiskupinn Konrad Krajewski. Þar gaf erkibiskupinn í skyn að páfinn kæmi með sér í næturheimsóknir til heimilislausra. The Huffington Post segir frá málinu á vefsíðu sinni.

Þar kemur einnig fram að samkvæmt heimildum Huffington Post hafi svissneskir verðir páfans staðfest að hann ætti það til að fara út um miðjar nætur klæddur eins og prestur að hitta heimilislaust fólk. Sé þetta rétt er Frans páfi ekki fyrsti páfinn sem fer út um miðjar nætur. Sögusagnir voru líka uppi um að forverar hans færu út um nætur að hitta heimilisleysingja.

Áður en Frans varð páfi og var kardínálinn Jorge Bergoglio fór hann gjarnan út á götu á nóttunni með brauð handa heimilisleysingjum og sat hjá þeim og borðaði með þeim.

Stikkorð: Róm  • Frans páfi