*

Matur og vín 13. maí 2016

Læknir á daginn, kokkur á kvöldin

Ragnar Freyr Ingvarsson er Lækninn í eldhúsinu. Hann lauk nýverið við sína þriðju matreiðslubók - Grillveislan, þar sem grillið gefur tóninn.

Eydís Eyland

Ragnar hefur gefið út tvær matreiðslubækur, Tími til að njóta, sem kom út fyrir jólin 2013 og Veislan endalausa, sem kom út ári síðar og hafa viðtökur bókanna hans verið einstaklega góðar, en báðar komust ofarlega á lista yfir mest seldu matreiðslubækurnar bæði árin. Þá hefur Ragnar prófað að vera sjónvarpskokkur á Skjá einum, sumarið 2014, en þá voru sýndir átta sjónvarpsþættir. Eftir vinnu heyrði í Ragnari til að forvitnast meira um lækninn í eldhúsinu og um þriðju matreiðslubókina sem ber nafnið Læknirinn í eldhúsinu – Grillveislan sem kom út 30. apríl síðastliðinn.

Hvaðan kemur þessi áhugi á mat og hver er tilkoma bloggsíðunnar þinnar, Læknirinn í eldhúsinu?

„Ég get þakkað foreldrum mínum matarástina. Ég byrjaði ungur að spreyta mig í eldhúsinu en það var að ósk þeirra að við bræðurnir sæjum um kvöldmatinn einu sinni í viku. Þá fengum við að velja hvað væri í matinn, elda hann og ganga frá. Þetta fannst mér skemmtilegt viðfangsefni, sérstaklega þegar vel tókst til og okkur var hrósað – þá varð maður sérstaklega ánægður og stoltur af góðu verki. Þegar ég fór að búa skiptum við hjónin með okkur verkum að ég tók að mér að sinna eldhúsverkum á meðan eiginkona mín, Snædís, tók að sér að sinna þvottum (og vel flestum öðrum verkum, þar sem eldamennskan varð fljótlega fyrirferðarmikil). Það var þó um haustið 2006 að mér fór eitthvað að skorta innblástur, var alltaf að gera sömu réttina, að mér flaug í hug að halda dagbók, að fyrirmynd Kitchen Diaries eftir Nigel Slater. Í stað dagbókarformsins ákvað ég að prófa að byrja að blogga þar sem ég taldi að ef einhver myndi lesa bloggið mynda það verða mér hvatning til að leita á ný mið og reyna nýjar uppskriftir. Þannig að 9. desember 2006 fór bloggsíðan mín í loftið og hefur verið á ágætri siglingu síðan.“

Nánar er rætt við Ragnar Frey í Eftir vinnu fylgiriti Viðskiptablaðsins.