*

Tíska og hönnun 12. maí 2016

Lærlingur í London

Halldóra Sif Guðlaugsdóttir er nýútskrifaður fatahönnuður frá Listaháskóla Íslands.

Eydís Eyland

Halldóra er 28 ára móðir og eiginkona sem hefur afrekað það að vera fyrsti Íslendingurinn sem landar starfi í tískuhúsi Alexanders McQueen. Eftir vinnu heyrði í Halldóru sem búsett er í London til að heyra hvernig starfið gengur fyrir sig og hvaða möguleika það hefur fyrir hana sem fatahönnuð.

Hver er þinn bakgrunnur á sviði fatahönnunar?

„Ég flutti til Danmerkur eftir menntaskóla og lærði þar kvenklæðskerann. Ég komst fljótlega að því að mér fannst skemmtilegt að hanna og skapa og vildi því leggja meiri áherslu á það. Þannig að ég sótti um í Listaháskóla Íslands í fatahönnun og lauk þar námi síðasta vor. Með skóla var ég að vinna í eitt ár hjá Munda Vonda og sá þar um framleiðsluna. Ég fór einnig til Parísar í starfsnám hjá Olympia Le-tan í tvo mánuði fyrir tískusýninguna og hjálpaði við undirbúning. Áður en ég flutti hingað til London var ég aðstoðarhönnuður hjá Hildi Yeoman og vorum við að gera næstu fatalínu.“ Hvernig færðu starfið hjá McQueen? „Ég var nýlega búin að klára Listaháskólann og langaði að prufa að vinna erlendis hjá einhverjum af mínum uppáhaldshönnuðum til þess að fá reynslu. Ég sótti um á nokkrum stöðum og var Alexander McQueen eitt af þeim fyrirtækjum. Ég sendi þeim portfolio online sem þeir voru hrifnir af og buðu þeir mér því í viðtal. Viðtalið gekk vel og buðu þeir mér lærlingsstöðu í WRTW womens wear (Womans ready to wear).“

Nánar er rætt við Halldóru í Eftir vinnu sem fylgir Viðskiptablaðinu.