*

Bílar 21. febrúar 2021

Laglegur og fullbúinn borgarjeppi

Nýr Kia Sorento hefur sópað að sér verðlaunum frá því að hann kom á markað fyrr á þessu ári.

Guðjón Guðmundsson

Sorento kom fyrst á markað síðla árs 2002 og var þá hefðbundinn jeppi byggður á grind með háu og lágu drifi. Fjórða kynslóð bílsins kom á markað í Evrópu seint á síðasta ári. Hann er 4,81 m á lengd og hefur því tekið vaxtarkipp á þessum átján árum og lengst um heila 24 sentimetra. Hann hefur líka tekið út þroska á fleiri sviðum og er nú kominn í hóp betur búinna borgarjeppa miðað við verð. Svo hefur hann meðmælaskrána með sér. Kia frá Kóreu er nefnilega einn þeirra bílasmiða sem státa af hvað lægstri bilanatíðni á alþjóðlegum listum eins og J.D. Power og Consumer Reports.  

Það sem einu sinni þótti voða fínt þykir púkó í dag. Sorento var í upphafi, eins og aðrir borgarjeppar eða slyddujeppar, eins og þeir kölluðust þá, kassalaga mjög en sterklegur ásýndum. Það fór lítið fyrir straumlínulögun eða einhverjum hönnunarpælingum sem miðuðu að því að draga úr loftmótstöðu eða sparneytni. Fagurfræðin tók mið af tímunum. Þetta var hönnun sem hitti beint í mark og tími slyddujeppanna og jepplinganna var runninn upp.  

Ævi bílsins er ekki löng; 135 ár reyndar. Forveri mannsins, homo habilis, fæddist fyrir 2,4 til 1,4 milljónum ára, segir Wikipedia. Að fylgjast með útlitsþróun bílsins í gegnum tíðina er eins og að fylgjast með útlitsþróun mannsins á mjög hraðri spólun nema hvað allt gerist auðvitað á löturhægri spólun hvað bílinn varðar í samanburði við dýrategundina. Það hefur teygst úr öllum dráttum og skynsemissvipur farinn að marka ásjónuna. Svo heldur maður alltaf að lengra verði ekki komist. Hinu endanlega takmarki sé náð. Þannig tilfinningu vekur núna nýr Sorento. Glæsileiki í hverjum drætti og formlínur með einhverja rökrétta samsvörun í öllum arkitektúr og í samræmi við notagildið. Eftir tíu ár verður nýr Sorento samt sennilega jafn púkó og árgerð 2002 er nú.  

Nánar er fjallað um málið í fylgiritinu Bílar. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.