*

Bílar 24. apríl 2021

Laglegur og með jepplingslagi

Fólksbílar með jepplingalagi er söluvara og stallbakar, hlaðbakar og langbakar eiga undir högg að sækja.

Guðjón Guðmundsson

Bílasalar á Íslandi ganga margir svo langt að kalla bíla með þessu byggingarlagi jeppa eða jepplinga og verði þeim að góðu. En í grunninn eru þetta fólksbílar, kannski með örlítið meiri veghæð og stundum jafnvel fjórhjóladrifnir en alltaf með sambyggða grind og yfirbyggingu og án millikassa. Léttari fyrir vikið og mun meðfærilegri í borgarumferð. Og valkostur sífellt fleiri bílkaupenda.

Einn sá nýjasti í þessum flokki, sem á ensku kallast „crossover“, er Citroën C5 Aircross. Við auglýsum reyndar eftir góðu íslensku heiti á fyrirbærið sem getur þó ekki verið blendingur vegna skyldleika við „hybrid“ bílana alla.

Citroën er nú hluti Stellantis-samstæðunnar sem hefur lögfestu í Amsterdam og varð til á þessu ári með samruna Fiat/ Chrysler og PSA (Peugeot/ Citroën).

Citroën var seinn til að koma fram með þessa vinsælu bílgerð. En nú er hún komin og frekar velheppnuð. C5 Aircross tengiltvinnbíllinn er, í huga þess sem þetta skrifar, einn af fallegri valkostunum í þessum fýsilega flokki borgarbíla.

Frakkinn er listrænn, það vitum við. Eigum við að fara að telja upp listrænuna alla? Renoir, Ravel, Zinedin Zidane eða Kylian Mbappé? Citroën heitir eftir skapara sínum, André Citroën, iðnhöldinum franska sem hóf bílaframleiðslu undir sínu nafni 1919. Citroën var fyrstur bílaframleiðenda til að kynna til sögunnar ýmsar nýjungar og DS er eitt af íkonunum í sögu bílsins. Hann var líka fyrstur til að magnframleiða framhjóladrifsbíla árið 1934. Og það er C5 Aircross einmitt. Framhjóladrifinn eingöngu.

Eingöngu framhjóladrif
Hann er byggður á sömu botnplötu og náfrændinn, Peugeot 3008, en er þó lítið eitt lengri. En ólíkt frændanum fæst hann eingöngu framhjóladrifinn meðan 3008 fæst jafnt framhjóladrifinn og með drifi á öllum hjólum. En verðmunurinn er líka talsverður. Þannig kostar ódýrasta framhjóladrifsútfærslan af Peugeot 3008 5.890.000 en sú ódýrasta af C5 Aircross 5.490.000. Fjórhjóladrifinn 3800 kostar svo 6.590.000 og er þá kominn með 300 hestafla aflrás og 59 km rafakstursdrægi.

Fallegar línur
Hönnunar fílósófía Citroën er heillandi. Hann gerir ekki ljóta bíla, spurning samt um Kaktusinn. Innvolsið græðir mikið á PSA (Stellantis) samstarfinu. Litla, sportlega fjölaðgerðastýrið er kannski dæmi um það.

En þegar steðjað er að C5 Aircross kyrrstæðum býður hann af sér þokka; sterklegur ásýndum, svaka stórt grill og vélarhlíf næstum eins og á pallbíl, og með öðruvísi formlínur en bílar í sama flokki. En alltaf þessi litli afturgluggi sem skerðir útsýni aftur með bílnum. Stórir hliðarspeglar og bakkmyndavél bjargar þó málum þannig að það kemur ekki beinlínis að sök.