*

Hitt og þetta 3. ágúst 2018

Lakhta-turninn sá stærsti í Evrópu

Lakhta-turninn í Sankti Pétursborg verður stærsta bygging Evrópu. Rússar eiga þar með 6 af 7 hæstu byggingum heimsálfunnar.

Turn Lakhta-miðstöðvarinnar í Sankti Pétursborg, Rússlandi, verður senn tilbúinn, og verður 462 metrar á hæð. Það gerir hann 13. hæstu bygging heims, og þá hæstu í Evrópu. Turninn verður einnig nyrsti skýjakljúfur heims.

Hinn 87-hæða turn snýst heilar 90 gráður frá grunni til topps. Íbúðar- og verslunarrými verður í fyrstu 360 metrunum, en þar fyrir ofan verður útsýnispallur og veitingastaður, með útsýni yfir Finnlandsflóa.

Fráfarandi hæðarmethafi Evrópu er einnig í Rússlandi, hinn 374-metra hái Sambandsturn (Federation Tower), sem lokið var við í fyrra. Þar að auki eru 5 af næstu 6 byggingum á listanum í Rússlandi, en aðeins Brotið (The Shard) í hjarta Lundúna – sem vermir 5. sætið eftir tilkomu Lakhta-turnsins – skyggir þar á Rússana. Engin önnur bygging í Evrópu nær 300 metrum, sem er þröskuldurinn fyrir svokallaða „ofurháa“ skýjakljúfa.

Undirstöður byggingarinnar ná 82 metra ofan í jörðina, og vindhraði við topp hennar nær allt að 38 metrum á sekúndu. Yfirborð hennar er þakið 16.500 glerplötum sem útbúnar eru sjálfvirkum lokum til að draga úr hitamissi.

Hafist var handa við byggingu Lakhta-miðstöðvarinnar árið 2012, en hún mun hýsa höfuðstöðvar rússneska gasrisans Gazprom, sem hyggst flytja inn í lok næsta árs.

Stikkorð: Rússland  • Sankti Pétursborg  • Lakhta