*

Hitt og þetta 9. júlí 2013

Lamadýr nýjasta æðið meðal gæludýraeigenda í Bandaríkjunum

Þeir sem fá sér lamadýr segja að það sé erfitt að eiga bara nokkur og margir vilja eiga heilu hjarðirnar, slíkir ljúflingar eru dýrin.

Fyrir nokkrum áratugum var nánast óheyrt að fólk héldi lamadýr sem gæludýr. En í dag eru um 115 þúsund lamadýr í Bandaríkjunum samkvæmt hinni alþjóðlegu lamadýraskrá. 

Lamadýr njóta sívaxandi vinsælda sem gæludýr í Bandaríkjunum. Og ekki að ástæðulausu því þau eru hljóðlát, þykja ljúf, ástrík, þurfa lítið viðhald og lykta ekki svo agalega.

Lamadýrum hefur verið líkt við hunda þar sem þau eru félagar eigenda sinna. En ekki eru dýrin ókeypis því lamadýraræktendur hafa borgað allt að 30 þúsund dali eða 3,7 milljónir króna fyrir almennilegt karldýr af fínum ættum. En lítið lamadýr fæst fyrir um 500 dali eða 63 þúsund krónur.

Þeir sem eiga lamadýr hafa sagt að það sé engu líkt að horfa í stóru augun og sjá eyrun sperrast og mæta skilningi og djúpri næmni. Flestir sem fá sér lamadýr fá sér tvö eða þrjú þar sem þau þurfa félagsskap og finnst ekki gaman að búa ein.

Katrina Capasso, lamadýraeigandi, býr í Ballston Spa í New York fylki. Hún segir að lamadýr séu eins og kartöfluflögur, það er erfitt að hætta þegar maður hefur fengið sér tvær eða þrjár. Frú Capasso fékk fyrsta lamadýrið í brúðargjöf frá eiginmanni sínum honum Gary árið 1990. Í dag á hún 55 stykki.

Og fyrir áhugasama þá eru lamadýr eingöngu útidýr og halda verður kynjunum aðskildum, annars fjölga þau sér stanslaust. Einnig þarf að fylgjast vel með heilsu þeirra því lamadýrin eru róleg í tíðinni og kvarta sjaldan meiði þau sig eða veikist. Og þetta með að þau hræki á allt sem hreyfist er víst þjóðsaga. Þau gera það eingöngu sé þeim ógnað. 

Sjá nánar á The New York Times

Stikkorð: Gæludýr  • Lamadýr