*

Bílar 13. apríl 2012

Nýr jeppi frá Lamborghini

Margir lúxus- og sportbílaframleiðendur eru með jeppa á teikniborðinu.

Ítalski ofursportbílaframleiðandinn Lamborghini mun kynna nýjan jeppa á bílasýningunni í Peking seinna í apríl. Aðeins er um frumgerð af ræða og því er óvíst að bíllinn verði framleiddur í þeirri mynd, ef af framleiðslu verður á annað borð.

Stephan Winkelmann forstjóri félagsins sagði í samtali við þýska viðskiptablaðið Handelsblatt í gær að framleiðsla gæti hafist 2017 og helsti markaðurinn fyrir slíkan bíl væri í Kína. Jafnframt sagði hann að nauðsynlegt væri að fjölga tegundum af Lamborghini svo hægt væri að snúa tapi í hagnað fyrirtækið, en tap hefur verið á starfsemi þess frá 2009.

Lamborghini framleiddi jeppann LM002 árin 1986-1993 eftir að hafa fyrst byrjað að þróa jeppa árið 1977, þá sem herjeppa. Herjeppinn fór aldrei  í framleiðslu heldur varð að lúxusjeppa sem varð vinsæll meðal ríkra olíufursta.

Lamborghini fer sömu leið og lúxusbílaframleiðandinn Bentley sem kynnti nýjan jeppa í byrjun mars til að kanna viðbrögð við honum áður en endanleg ákvörðun um framleiðslu er tekin.

Breski sportbílaframleiðandinn Aston Martin kynnti árið 2009 nýja jeppann Lagonda sem á að koma á göturnar í ár.

Masserati hefur einnig boðað komu nýs jeppa árið 2014. Mun hann bera heitið Kubang. Er jeppinn hluti af áætlun um að auka framleiðslu á Maserati bifreiðum úr tæpum 7.000 eintökum á ári í um 50.000.

Jepparnir eru allir fjórir sérstakir í útliti og spennandi verður sjá hvort þeir verði framleiddir í þeirri mynd sem þeir hafa verið kynntir.

 

Þessi mynd er talin vera af nýja Lamborghini jeppanum. Það kemur í ljós 23. apríl hvort það er rétt.

Aston Martin Lagonda er væntanlegur í ár. Margir höfðu á orði að jeppinn væri ljótur þegar hann var kynntur á bílasýningunni í Genf 2009.

Nýi Bentley jeppinn sem var kynntur í síðasta mánuði.

Masserati Kubang er væntanlegur 2014.

Stikkorð: Bentley  • Lamborghini  • Aston Martin