*

Bílar 11. desember 2015

Á Lamborghini um götur Rómar

Sigmundur Ernir keyrði um borgina eilífu á glæsilegri Lamborghini-rennireið.

Sjónvarpsmaðurinn góðkunni Sigmundur Ernir Rúnarsson, sjónvarpsstjóri á Hringbraut, hefur gaman af bílum. Hann fékk eitt sinn að fara í forláta bílakjallara hjá auðkýfingi í Róm þar sem ítalskir fornbílar voru í forgrunni. Og í kjölfarið ók hann Lamborghini um götur hinnar fögru borgar.

Sigmundur Ernir segir okkur betur frá þessum uppáhaldsbíl sem hann hefur ekið og mörgu fleiru.

Brunað um borgina eilífu

Hver er uppáhaldsbíllinn sem þú hefur ekið?

,,Tvímælalaust Lamborghini sem ég fékk að prófa hjá auðkýfingi einum í Rómaborg sem ég hafði kynnst á kvikmyndahátíð í borginni. Hann bauð okkur nokkrum heim til síns sem reyndist vera á að giska 1.000 fermetra íbúð í miðbænum með þvílíku útsýni yfir hæðirnar yfir Róm að það rann á mann ósjálfráð ölvun. Undir húsinu var forláta bílakjallari sem karlinn hafði út af fyrir sig þar sem ítalskir fornbílar voru í forgrunni, en mér varð strax starsýnt á þennan líka flotta kagga sem virtist ættaður úr framtíðarmynd.

Ég lét ekki segja mér það tvisvar þegar hann bauð mér að prófa. Við settumst tveir upp í rennireiðina og þar fann maður fyrir hverri líru sem hafði verið varið í gerð bílsins þegar hann laumaði sér um göturnar. Í samanburði eru allir aðrir bílar hálfgerðar hjólbörur, nema ef vera kynni Toyota Land Cruiser sem ég held alltaf upp á úti á þjóðvegum og öræfaslóðum Íslands.“

Þræddu spænska sveitavegi

Hver er eftirminnilegasta bílferðin?

,,Í fljótu bragði kemur upp bílferðin með konu og börnum milli Andalúsíu og Alicante á Spáni með viðkomu í Granada. Við þræddum sveitavegina í einu dásamlegasta landslagi Evrópu; mæli sérstaklega með ökuferðum um Spán, t.d. á milli Barcelónu og Madrídar.“

Nánar er rætt við Sigmund í Bílum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð

Stikkorð: Bílar  • Lamborghini  • Róm  • Sigmundur Ernir