*

Bílar 5. desember 2014

Land Rover eða Landwind?

Kínverskur bílaframleiðandi hefur frumsýnt nýjan bíl sem er eftirlíking af Land Rover Evoque.

Kínverskur bílaframleiðandi gerðist svo kræfur fyrir stuttu að frumsýna nýjan bíla á bílasýningunni í Guangzhou. Bílinn kallar hann LandWind X7 og er hann eftirlíking af Land Rover Evoque.

Forsvarsmenn Land Rover urðu eðlilega öskuvondir og sökuðu kínversk stjórnvöld um brot á alþjóðalögum. LandWind kostar aðeins rúman þriðjung af verði Evoque. Um 24% af sölu Land Rover eru í Kína. Breski bílaframleiðandinn er þar í samstarfi við innlenda aðila. Það auðveldar þeim ekki bara aðgang að markaðnum, heldur einnig aðgang að kommisörunum í Kommúnistaflokki Kína. Þeir ráða nefnilega öllu.

Það virðist þó vera þannig, að þeir sem standi að baki LandWind eigi betri vini innan flokksins því ekkert hefur enn verið gert í málinu að hálfu kínverskra stjórnvalda. LandWind er bílaverksmiðja en í eigu tveggja af stærstu bílaframleiðendum Kína, Jiangling Motors Corporation og Changan Auto. Fyirtækin tvö eiga í samstarfi við Peugeot-Citroën, Ford og Suzuki og framleiða um tvær milljónir bíla á árlega.

Árið 2005 kom á markað bíll með sama nafni. Sá var byggður á Isuzu Rodeo frá níunda áratug síðustu aldar og fékk verstu útreið sem nokkur bíll hefur fengið í árekstrarprófun þýsku bíleigendasamtakanna (ADAC).

Stikkorð: Land Rover  • Landwind