*

Veiði 23. ágúst 2013

Landaði 50 punda Maríulaxi

Guðmundur Annas Árnason bjóst ekki við að landa risalaxi þegar hann tók sér hlé frá eldamennsku í veiðihúsi í Noregi.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

„Það er magnað að fá svona krókódíl á stöngina,“ segir Guðmundur Annas Árnason. Hann veiddi rétt rúmlega 50 punda lax á stöng í ánni Lakselva í Finnmörku í Norður-Noregi eftir hádegið í dag. Þetta var Maríulax Guðmundar. Hann vinnur sem kokkur í veiðihúsinu við ánna og hefur aldrei áður veitt á stöng og segist engar veiðigræjur eiga nema sokka. Til samanburðar var Grímseyjarlaxinn, stærsti lax sem veiðst hefur hér á landi, 49 pund. Sá veiddist í net við Grímsey árð 1957 og vóg 49 pund blóðgaður. Hann var ívið lengri en lax Guðmundar, 132 sentímetrar. Sá norski mældist 123 sentímetrar.

Guðmundur hefur verið ytra síðastliðnar þrjár vikur og haft í nógu að snúast í eldhúsinu en hann eldar ofan í veiðimenn sem dvelja í húsinu og reyna við þann stóra. Algengt er að menn fái um 28-30 punda laxa á stöng í ánni. Guðmundur segir í samtali við VB.is mág sinn sem er leiðsögumaður við ánna hafa lánað sér stöng og hann kastað um tvo tíma um hádegisbil í dag þegar sá stóri beit á.

Guðmundur telur það hafa tekið um 40 mínútur að landa laxinum með aðstoð mágsins og atganginn tekið á.

„Þetta var ótrúlegt ævintýri. Ég er búinn að vera í geðshræringu í dag, alveg búinn á því og fer örugglega snemma í rúmið,“ segir veiðihúsakokkurinn Guðmundur.