*

Veiði 8. febrúar 2013

Landeigendur við Norðurá höfnuðu tilboði SVFR

Stangaveiðifélag Reykjavíkur bauð 83,5 milljónir fyrir veiðiréttinn í Norðurá en landeigendur vilja meira.

Landeigendur við Norðurá ákváðu á fundi, sem haldinn var þann 29. janúar síðastliðinn, að hafna öllum framkomnum tilboðum í veiðirétt í Norðurá, að því er segir í frétt Skessuhorns.

Fundurinn ítrekaði svo fyrri samþykktir um umboð stjórnar félagsins til að vinna að útleigu árinnar, en núverandi samningur við Stangaveiðifélag Reykjavíkur rennur út eftir veiðisumarið 2013.

Tilboð í veiðiréttinn voru opnuð þann 20. janúar og bárust tvö gild tilboð, bæði frá SVFR. Hærra tilboðið var upp á 83,5 milljónir króna, sem er lækkun frá núverandi leiguverði, sem er 85 milljónir.

Þriðja tilboðið barst reyndar frá ónafngreindum aðila, en það var undirritað af Gesti Jónssyni lögmanni. Engin upphæð var nefnd í því tilboði og óskað eftir viðræðum um veiðiréttinn. Því tilboði var vísað frá.

Stikkorð: Norðurá  • SVFR