*

Sport & peningar 16. mars 2018

Landinn tekur vel í treyjuna

Verslunarstjóri Jóa Útherja segir eftirspurn eftir nýju karlalandsliðstreyjunni í knattspyrnu hafa verið stöðuga frá í gær.

Viðar Valsson verslunarstjóri í Jóa Útherja, sem er sérvöruverslun með íþróttavörur í Ármúla, segir að vel gangi að selja nýju landsliðstreyju íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu sem kynnt var í gær.

„Við byrjuðum klukkan 17 í gær og vorum með opið til 20, og það var bara nokkuð gott rennerí þá. Síðan við tókum svo úr lás klukkan 10 í morgun hefur rennenneríið haldið áfram.“

Spurður hvort einhver hætta sé á að treyjurnar klárist í bráð segir hann að verslunin hafi gert ágætisráðstafanir í þetta sinn. „Vonandi lærðum við af þessu fyrir tveimur árum síðan,“ segir Viðar en þá kláruðust ýmsar stærðir þó hann geti ekki útilokað að það sama gerist aftur.

„Það var ekki alveg nógu mikil þekking á þessum stórmótum og hve mikið væri að fara á meðan við værum að keppa á slíku þá.“
Viðar segist sjálfur vera mjög sáttur við útlit nýju treyjunnar sem er frá Errea en félagið hefur í myndmáli og kynningartexta rætt um kraftana sem búa í iðrum Íslands. „Salan er góð og landinn er að taka vel í treyjuna.“