*

Hitt og þetta 27. júlí 2005

Landssamtök hjólreiðamanna

Landssamtök hjólreiðamanna eru regnhlífasamtök hjólreiðafélaga á Íslandi. Helsta starf samtakana um þessar mundir er að hafa vakandi auga með aðstæðum til samgangna og senda frá sér athugasemdir þar sem þörf er á. Samtökin leggja mikla áherslu á að byggt verði gott net hjólreiðastíga á milli bæjarfélaga höfuðborgarsvæðisins og á völdum stöðum í þéttbýli, en erfiðlega hefur gengið að fá stjórnvöld til að taka málið til umræðu.

Morten Lange, formaður LHM, segist vonast til að með bættri aðstöðu muni fleiri nýta sér þennan heilbrigða og sjálfbæra farkost. "Stjórnarmenn tala oft um veðrið sem afsökun fyrir því að fólk nenni ekki að hjóla. Það hefur hinsvegar komið fram í skoðanakönnunum sem hafa verið gerðar erlendis, að aðstæður í vegakerfinu og óþægindi vegna umferðar letji fólk frekar en veðurfar. Auk þess hefur veðrið verið nokkuð gott undanfarna vetur hér heima," segir Morten.

Samkvæmt norskri rannsókn hefur uppbygging á hjólreiðastígum og slíks nets skilað sér margfalt til baka með sparnaði í heilbrigðiskerfinu. "Það hefur hinsvegar verið lítill hljómgrunnur fyrir betri tengingum á milli nágrannasveitafélaga og jafnvel á milli hverfa hér heima. Það hefur ekki einu sinni tekist að setja af stað nefnd á vegum alþingis til að skoða málið, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir alþingismanna úr öllum flokkum og LHM," segir Morten. "Við erum að sækjast efir því að lagðir verði stígar á milli helstu staða höfuðborgarsvæðisins, byrjað þar sem þörfin er mest. Það hefur hinsvegar verið lítil samastaða á milli sveitafélaganna á höfuðborgarsvæðinu og má segja að málið sé í hálfgerðri biðstöðu."

Hjólreiðastígar í vegalögum

Aðstaðan fyrir hjólreiðar á höfuðborgarsvæðinu hefur batnað mikið á síðustu árum með lagningu útivistar- og göngustíga. Það er þakkarvert því sýnilega hefur það aukið hjólreiðar í borginni. En slíkir stígar eru ekki hugsaðir út frá þörfum þess sem vill nota hjólið sem samgöngutæki, segir Morten. "Að mati LHM er mesta þörfin á greiðari samgöngum á milli bæjarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Sveitastjórnarmenn geta hinsvegar ekki komið sér saman um hver á að borga brúsann og hvar eigi að leggja þessa stíga. Má segja að málið sé í algjörri biðstöðu og ekkert gerist."

Illa hefur gengið að fá hjólreiðabrautir í vegalög en ástæðuna telur Morten vera að alþingismenn telji að hjólreiðamenn séu að fara fram á það sama og hestamenn hafa fengið, þ.e. að leggja brautir fyrir hjólreiðamenn meðfram öllum þjóðvegum. "Við erum raunsæir og sjáum að það muni ekki ganga eftir í nánustu framtíð. Breikkun vegaxla utan þéttbýlis, þar sem umferð er þung, myndi duga vel, auk þess sem það myndi gagnast öðrum en hjólreiðamönnum," segir Morten. "Við teljum það einnig brýnt að lagðir verði stígar á milli helstu staða á höfuðborgarsvæðisins, byrja þar sem þörfin er mest. Uppbygging ríkisins í þéttbýli með hraðbrautum og mislægum gatnamótum hefur gert það að verkum að víða hefur orðið erfiðara að hjóla síðustu 5-15 árin. Okkur finnst sjálfsagt að ríkið, sem er að byggja upp samgönguleiðir með skattpeningum almennings, sinni einnig þeim sem vilja nýta sér reiðhjól sem samgöngutæki. Þetta er umhverfisvænn og sjálfbær ferðamáti en það sjónamið virðist hafa gleymst í síðustu samgönguáætlun, þar sem þó var mikið talað um sjálfbærar samgöngur."

Hægt að minnka líkur á sjúkdómum

Virt rannsóknarstofnun um hagfræði samgangna í Noregi, Transportøkonomisk institutt, hefur gefið út skýrslu um hagfræðilegan ávinning af göngu- og hjólreiðastígum þar í landi.

Samkvæmt hóflegum áætlunum skýrslunnar, myndu framkvæmdirnar við stígana borga sig margfalt. Þjóðhagslegur ávinningur er þrefalt meiri en kostnaðurinn við að leggja þessa stíga, og í sumum tilvikum var ávinningurinn fjórtánfaldur.

Hreyfing getur minnkað líkur á margskonar sjúkdómum. Í skýrslunni er varlega áætlað að hver nýr hjólreiðamaður spari samfélaginu 7.500 norskar krónur á ári vegna heilsufarsávinnings vegna minnkandi líka á alvarlegum sjúkdómum, en það samsvarar 75 þúsundum íslenskra króna. Til að ofmeta ekki kostnaðinn tók skýrslan einungis til fjögurra alvarlegra sjúkdóma, sem eru: krabbamein (5 tegundir), hár blóðþrýstingur, áunnin sykursýki og sjúkdómar tengdir vöðva- og beinasjúkdómum.

Hagkvæmt fyrir fyrirtæki

Átakið "Hjólað í vinnuna" hófst árið 2003 fyrir tilstilli ÍSÍ sem fékk þá styrk frá alþjóða ólympíusambandinu. Hjólreiðasamtökin hafa aðstoðað við skipulagið og komið með ráðgjöf um hvernig best sé að standa að átakinu sem hvetur starfsmenn til að hjóla í vinnuna. Það voru um 500 þátttakendur fyrsta árið en nú í ár voru um 5.000 þátttakendur, frá 254 vinnustöðum í 34 sveitarfélögum. Fjöldinn hefur því tífaldast á tveimur árum.

"Fólk sem hefur tekið þátt í átakinu hefur haft orð á því hversu auðvelt það sé að hjóla í vinnuna. Það hélt að þetta yrði miklu meira mál, erfiðara og tímafrekara. Staðreyndin er að fyrir marga er ekki svo langt að hjóla í vinnuna, oft ekki nema 3-5 km leið. Fyrir flesta er ekkert mál að hjóla það, enda fjölmörg dæmi um fólk sem hjólar mun lengra í vinnu hérlendis allt árið um kring."

Flest fyrirtæki eru með svokallaða íþróttastyrki til að bæta heilsu starfsmanna. Með því vilja fyrirtækin auka afköst og fækka veikindadögum. Samkvæmt norsku skýrslunni sparast að meðaltali 2.500 norskar krónur á hvern einstakling á ári við að fá starfsmenn til að hreyfa sig, því veikindadögum í stuttum veikindum fækkar einnig. Undir hreyfingu flokkast að sjálfsögu hjólreiðar en fyrirtæki geta hvatt starfsmenn til að hjóla með ýmsu móti, t.d. með sturtu á vinnustöðum, þurrkaðstöðu fyrir blaut föt og hjólaskýli til að verja hjólin fyrir rigningu og snjó, auk þess að endurgreiða varahluti á hjólum eða hluta af kostnað reiðhjóls eða fatnað.

Fyrirtæki í Bretlandi fá skattaafslátt ef þau kaupa reiðhjól handa starfsmönnum, segir Morten. "Fyrirtækin leigja þau svo út til starfsmanna á vægu verði og selja þeim ódýrt eftir þriggja ára notkun. Með þessum hætti er líka hægt að spara bílastæði en það getur reynst vel í bænum, þar sem starfsmenn og viðskiptavinir eiga oft í erfiðleikum með að fá bílastæði."

Hjálmaskylda ekki endilega góð lausn

Í mars 2005 lagði Samband Íslenskra tryggingafélaga fram tillögu þess efnis í Umferðarráði að lögleiða reiðhjólahjálma á alla aldurshópa. Var það byggt á gögnum um fjölda slasaðra barna sem nú þegar eiga að bera hjálma samkvæmt lögum upp að 15 ára aldri. En rökin með hjálmaskyldu eru ekki eins augljós og halda mætti í fyrstu.

"Það hefur sýnt sig, bæði í Ástralíu og Nýja Sjálandi og víðar, að hjálmaskylda fækkar þeim sem ástunda þessar heilsusamlegu og vistvænu samgöngur. Hinsvegar hefur enginn árangur náðst af hjálmaskyldu í þessum löndum, því hætta hjólreiðamanna á höfuðmeiðslum minnkuðu lítið sem ekkert," segir Morten. "Kostnaður samfélagsins og heilsutjón almennings verður hinsvegar mun meiri en það heilsutjón sem höfuðmeiðsli hjálmlausra hjólreiðamanna valda. Tölfræðin sínir einnig að hreyfingaleysi drepi mun fleiri en slysin á hjólreiðamönnum nú þegar."

Morten vill hinsvegar taka það fram að LHM sé ekki á móti hjálmanotkun og aðildarfélögin munu væntanlega áfram hafa hjálmaskyldu í ferðum og keppnum. "Þegar tillögur um almenna hjálmaskyldu komu fram var okkur hinsvegar skylt að benda á þau neikvæðu áhrif sem almenn hjálmaskylda hefur haft erlendis" segir hann og bætir við að það hafi komið sér á óvart hversu sterk rökin gegn hjálmaskyldu væru. "Eftir að ég fór að lesa mér til um gagnsemi hjálma og tölfræði frá öðrum löndum, minnkaði trú mín á gagnsemi hjálmaskyldu. Eitt sem kom á óvart var að framleiðendur prófa hjálmana undir kringumstæðum sem eru hreinn barnaleikur miðað við árekstur við bíl," segir Morten.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is