*

Menning & listir 27. október 2012

Langahlíð á Manhattan

Kári Finnson skrifar um íslenska listamenn í New York.

Kári Finnson

Spölkorn frá Bowery-götunni í New York má sjá einkennilegan og óvæntan minnisvarða um Reykjavík inn um glugga Eleven Rivington gallerísins. Smátt herbergi er þar að mestu tómt fyrir utan þrjá hvíta stólpa sem minna einna helst á módel fyrir blokkaríbúðir.

Flestir vegfarendur þyrftu töluvert hugmyndarflug til að átta sig á fyrirmyndinni, Lönguhlíð 11, sem er einnig æskuheimili listamannsins sem stendur að baki verkinu. Katrín Sigurðardóttir hefur um nokkurt skeið dvalist og starfað í New York og hefur einna helst unnið sér það til frægðar að hafa átt vinsæla sýningu á Metropolitan safninu fyrir nokkru ásamt því að verða fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum á næsta ári. Verkin á sýningunni, sem ber nafnið „Ellefu“, eru áþekk flestum verkum Katrínar sem gefa áhorfandanum ferska sýn á umhverfi hans og skala hlutanna í kringum okkur. Skúlptúrarnir eru ekki beinar eftirmyndir af Lönguhlíðinni heldur eru þeir stilltir upp eins og minningar okkar flestra af æskuheimilum eru; óljósar en sterkar.

Það verður seint deilt um það að New York er miðstöð myndlistar í heiminum — í hið minnsta er hún miðstöð markaðarins. Þess vegna er áhugavert að sjá hversu margir íslenskir myndlistarmenn hafa náð að hasla sér völl þar á síðustu árum. Auk Katrínar má t.d. nefna Hrafnhildi Arnardóttur, sem gengur einnig undir nafninu Shoplifter og gerir litríka hárskúlptúra. Í göngufjarlægð frá sýningu Katrínar má finna innsetningu hennar í Clocktower galleríinu í SoHo sem hún vann í samstarfi við Kríu Brekkan.

Í Chelsea, fyrrum kjötvinnsluhverfi í vesturhlið Manhattan, má finna stærstu og virtustu gallerí borgarinnar. Meðal þeirra er Luhrig Augustine, fulltrúi Ragnars Kjartanssonar í Bandaríkjunum, en hann er þekktur fyrir gjörninga sína og vídeóverk. Í fyrra sigraði hann í gjörningahátíðinni Performa í New York, stærstu hátíð sinnar tegundar í heiminum, og verður bráðlega með stóra sýningu í Migros safninu í Zürich. Þetta er aðeins sneiðmynd af áhrifum íslenskra myndlistarmanna erlendis en hún gefur ákveðna mynd af vaxandi markaði fyrir íslenska myndlist í Bandaríkjunum.

Stikkorð: Myndlist  • Kári Finnson