*

Hitt og þetta 3. apríl 2014

Langar að skrifa meira en ég geri

Svanhildur Hólm Valsdóttir er ekki í vafa hvert draumastarfið hennar yrði.

Lára Björg Björnsdóttir

Svanhildur Hólm Valsdóttir, lögfræðingur og aðstoðarmaður fjármálaráðherra, hefur unnið við allt mögulegt alveg frá því að hún var unglingur.

„Eitt fyrsta sumarstarfið var í frystihúsi á Grundarfirði. Ég vann líka nokkur sumur hjá Landsvirkjun, málaði hús, gróf grunna og gróðursetti alltof mörg tré. Svo hreinsaði ég vambir og garnir og gerði annað sem til féll á sláturhúsinu á Húsavík á haustin. Ég vann líka sem þjónn og rukkustelpa á rútu, svo eitthvað sé nefnt. Stærstan hluta af starfsævinni hef ég þó unnið á fjölmiðlum. Ég byrjaði sem blaðamaður á Degi á Akureyri 1995 og vann svo á svæðisútvarpinu fyrir norðan, á Rás 2, í sjónvarpi allra landsmanna og á Stöð 2,“ segir Svanhildur þegar hún er beðin að skauta yfir starfsferilinn.

Spurð hvað hana langi til að gera næst segir Svanhildur: „Mér finnst skrýtið að hugsa um eitthvað „næst“. Í mér blundar reyndar alltaf að fara í frekara nám, en ég verð venjulega mjög upptekin af þeim verkefnum sem ég sinni og finnst almennt mjög gaman í vinnunni. Ég hef aldrei losnað við fjölmiðlabakteríuna og gæti þess vegna alveg hugsað mér að gera eitthvað fjölmiðlatengt, hvað svo sem það yrði. Annars hefur vinnan í fjármálaráðuneytinu opnað fyrir mér nýjar víddir að svo mörgu leyti að það er aldrei að vita hvert hugurinn mun stefna þegar henni lýkur,“ segir Svanhildur.

Svanhildur er ekki í vafa hvert draumastarfið hennar yrði: „Ég væri til í að fá að vinna við fornleifauppgröft. Grínlaust. Ég veit reyndar ekki hversu lengi ég myndi endast, en mér hefur alltaf fundist fornleifafræði spennandi fag (þess vegna hreifst ég af Loga, nei, djók!) og sagnfræði sömuleiðis. Svo langar mig til að skrifa meira en ég geri. Það er bara spurning í hvaða farveg ég get komið þeirri löngun.“

Viðtal við Svanhildi Hólm Valsdóttur birtist í blaðinu Áhrifakonur sem fylgdi Viðskiptablaðinu i dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð