*

Bílar 28. júní 2014

Langar í skvísulegan en kraftmikinn jeppa

Margrét Gísladóttir hefur alltaf verið mikil Audi manneskja.

Margrét Gísladóttir, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, hefur mikinn áhuga á bílum. Eftirminnilegasta bílferð hennar var á leið á sveitaball þegar bremsurnar í gömlum Land Rover voru við það að gefa sig.

Hver er uppáhaldsbíllinn sem þú hefur ekið?

Ég hef alltaf verið mikil Audi manneskja og hef eiginlega ekki verið söm síðan ég skipti mínum yfir í Volkswagen fyrir rúmu ári. En í vetur fékk ég að prófa Tesla S módelið sem er vægast sagt dásamlegur. Þér líður eins og þú sért í lítilli lúxusgeimflaug þegar þú sest inn í hann og færð svo þessa rússíbanatilfinningu í magann um leið og þú byrjar að keyra. Brjálæðislega skemmtilegur bíll.

Hver er eftirminnilegasta bílferðin?

Þegar ég var 17 ára keyrði ég hópi fólks á sveitaball í gömlum Land Rover, árgerð 1977. Ævintýrið byrjaði á því að ballgestirnir þurftu að ýta drossíunni í gang. Þegar við vorum svo komin af stað hallar eigandinn sér upp að mér og segir í hálfkæringi: „Svo eru þeir hálfleiðinlegir gírarnir, annar og fjórði virka illa en það ætti ekki að koma að sök.“ Á leið niður fyrstu brekkuna kom svo í ljós að bremsurnar voru ekki langt frá því að vera úrskurðaðar látnar. Ég hef aldrei verið jafn bílhrædd á ævi minni, þó ég hafi sjálf verið undir stýri og vegalengdin væri ekki nema 4 km

Nánar er rætt við Margréti í Bílablaði Viðskiptablaðsins sem kom út 26. júní 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn tölublöð.

Stikkorð: Bílar