*

Veiði 30. mars 2019

Langþráð stund er að renna upp

Mikilvægasti dagur ársins hjá stangveiðimönnum er að renna upp því 1. apríl hefst veiði í fjölda áa og vatna víða um land.

Trausti Hafliðason

Verði fólk vart við ljóstýru í bílskúrum og geymslum um helgina er næsta víst að þar inni eru stangveiðimenn að dunda sér. Þeir sem eru á leið í nettu árnar eru að yfirfara einhendur en fljótamennirnir að bóna tvíhendur. Straumflugur og púpur eru skoðaðar í hörgul og línur hreinsaðar svo þær renni mjúklega í gegnum stangarlykkjurnar og beri fluguna fyrirhafnarlaust að glorsoltnum sjóbirtingum og bleikjum. Fiskum, sem dvalið hafa í ám og vötnum landsins í allan vetur, skeytingarlausir um stöðu kjaramála og flugfélaga. Á bökkunum tæma veiðimenn líka hugann. Argaþras þjóðmálanna er látið lönd og leið og það eina sem skiptir máli eru gáruhringir á vatni eftir uppítökur silungs. Langþráð stund er að renna upp – stangaveiðitímabilið hefst á mánudaginn.

„Klárir í slaginn“

„Það er mikil tilhlökkun í veiðimönnum núna,“ segir Kristinn Ingólfsson, eigandi veida.is, sem er einn stærsti veiðileyfavefur landsins. „Menn eru farnir að rýna í veðurspár en þó að veðrið verði slæmt þá láta menn það ekkert stoppa sig – þeir eru klárir í slaginn.“

Kristinn segir að sala veiðileyfa í vorveiði hafi gengið vel. Sem dæmi sé uppbókað í Vatnamótin í apríl. Þá segir hann mikið um að erlendir veiðimenn komi í vorveiðina. Það helgist helst af því að leyfin séu ódýrari en á sumri og þá sé einnig hægt að fá ódýrara flug og gistingu á þessum árstíma. Sjálfur segist hann alltaf taka rúntinn 1. apríl til að kanna stöðuna og taka úr sér mesta hrollinn með því egna fyrir silungi í ám á Suðurlandi.

Árnar sem gjarnan fá mestu athyglina á þessum árstíma eru þær sem eru í Vestur- Skaftafellssýslu. Má þar nefna ár eins og Tungufljót, Tungulæk, Grenlæk, Geirlandsá, Eldvatn, Vatnamót og Steinsmýrarvötn. Það er ekki að ósekju að augu veiðimanna beinist að þessum ám því þetta eru einar bestu sjóbirtingsár landsins. Á fyrsta veiðidegi ársins í fyrra var 100 sjóbirtingum landað í Tungulæk, 99 í Vatnamótum, rúmlega 70 í Tungufljóti og um 80 í Geirlandsá. Hópurinn sem opnaði Tungulæk landaði 234 sjóbirtingum á tveimur og hálfum degi, sem er ótrúlega góð veiði. 70 í Tungufljóti og um 80 í Geirlandsá. Hópurinn sem opnaði Tungulæk landaði 234 sjóbirtingum á tveimur og hálfum degi, sem er ótrúlega góð veiði.

Tekur í fyrsta kasti

Lárus Lúðvíksson, lánastjóri í Íslandsbanka, er mikill veiðimaður og undanfarin ár hefur hann verið í opnunarholli Tungufljóts í Skaftárhreppi.

„Þetta er alltaf skemmtilegur tími og það hefur alveg komið fyrir að hann hafi tekið í fyrsta kasti,“ segir Lúðvík. „Í fyrra gerðum við alveg ótrúlega góða veiði í Tungufljótinu, við lönduðum tæplega 100 fiskum. Sjálfur náði ég mínum stærsta fiski en það var 93 sentímetra sjóbirtingur. Það er allra veðra von á þessum árstíma. Við höfum verið þarna í snjóbyl en líka blíðskaparveðri. Sömu sögu má segja af veiðinni. Stundum er hún mjög góð, stundum sæmileg en við höfum líka lent í lélegri veiði.“

Í apríl hefst líka veiði í fjölmörgum öðrum ám víða um land eins og Minnivallalæk í Landsveit og Varmá, sem rennur í gegnum Hveragerði. Þar í grennd hefst líka í veiði í Soginu og Brúará. Þá er í apríl einnig egnt fyrir sjóbirtingi í Leirvogsá, Leirá í Leirársveit og Grímsá í Borgarfirði, Húseyjarkvísl í Skagafirði, Litluá í Kelduhverfi og Brunná í Öxarfirði svo einhverjar ár séu nefndar.

Leyndarmálið um Elliðavatn

Á þessum árstíma eru veiðimenn líka að eltast við urriða og bleikju í vötnum. Á mánudaginn hefst til dæmis veiði í Hraunsfirði á Snæfellsnesi, Meðalfellsvatni í Kjós og Vífilsstaðavatni í Garðabæ. Eftir því sem líður á mánuðinn hefst veiði í hverju vatninu á fætur öðru. Hinn 15. apríl hefst veiði í Kleifarvatni á Reykjanesskaga, 20. apríl í Þjóðgarðinum í Þingvallavatni og 25. apríl í Elliðavatni en í Elliðavatni miðast opnun alltaf við sumardaginn fyrsta.

Elliðavatn er lítil veiðiperla sem margir vita af en tiltölulega fáir vita mikið um. Vatnið hefur stundum verið kallað „háskóli fluguveiðimannsins“. Er sú nafngift ekki að ósekju því vatnið hefur reynst mörgum veiðimönnum erfitt viðureignar og margir komið heim með öngulinn í rassinum. Aftur á móti eru til veiðimenn sem þekkja það eins og lófann á sér og fara nánast aldrei heim fisklausir. Einn þeirra er Geir Thorsteinsson. Hefur Geir meðal annars gefið út bækling um vatnið sem er fullur af fróðleik. Viðskiptablaðið getur því upplýst lesendur um lítið leyndarmál því áhugasamir geta fundið þennan góða bækling á netinu með því að skrifa leitarorðin „Elliðavatn: Perlan við bæjarmörkin“ í Google-leitarvélina.

Magnaðasta veiðivatnið

Þingvallavatn er eitt magnaðasta veiðivatn Íslands og reyndar veraldar. Þar eru fjórar tegundir af bleikju og einn stærsti urriðastofn í heimi, stærsti í þeirri merkingu að meðalþyngd urriðanna er mjög mikil. Á hverju ári veiðast urriðar sem eru 20 pund eða þyngri.

Þess ber að geta að í Þingvallavatni er eingöngu heimilt að veiða á flugu til 1. júní og á þeim tíma ber að sleppa öllum urriða. Frá 1. júní til 15. september má veiða á flugu, spún og maðk. Þau vötn sem hér hafa verið nefnd eru inni í Veiðikortinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: stangaveiði  • sjóbirtingur