*

Sport & peningar 5. janúar 2014

Laun Gylfa í sérflokki

Gylfi Þór Sigurðsson er annað árið í röð langlaunahæsti íslenski íþróttamaðurinn. Gylfi er með um 40 milljónir í mánaðarlaun.

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins og leikmaður með velska liðinu Cardiff, hefur saxað eilítið á Gylfa en Aron hækkaði nokkuð í launum þegar liðið komst í úrvalsdeild í vor. Aron er með um 120 milljónir króna á ári í laun. Kolbeinn Sigþórsson er einn launahæsti leikmaður hollensku deildarinnar og er með um 100 milljónir króna í árslaun hjá liði sínu Ajax.

Flottur samningur Sölva í Rússlandi
Miðvörðurinn Sölvi Geir Ottesen er líklega hástökkvari ársins meðal íslenskra atvinnumanna en hann skrifaði undir samning til tveggja ára við rússneska úrvalsdeildarfélagið FK Ural. Hann var án samnings eftir að hafa síðast leikið með FC Köbenhavn. Sölvi fékk mjög góðan samning hjá rússneska liðinu samkvæmt hinu danska Ekstra Bladet. Sölvi er sagður fá að jafnvirði 85 milljóna íslenskra króna í grunnlaun á ári auk bónusgreiðslna. Þá mun hann einnig hafa einkabílstjóra. Sölvi hækkaði um helming í launum við að færa sig austur til Rússlands. Ural er nýliði í úrvalsdeildinni og er frá Ekaterinburg, fjórðu stærstu borg Rússlands, sem er austur í Úralfjöllum, á mörkum Evrópu og Asíu. Sölvi þarf því að ferðast langar vegalegndir í leiki og ætti að vera kominn með nóg af flugpunktum hjá rússnesku flugfélögunum.

Leikmennirnir á Ítalíu hafa það gott
Í fimmta og sjötta sæti á listanum yfir launahæstu íslensku atvinnumennina eru tveir landsliðsmenn sem leika á Ítalíu. Birkir Bjarnason gekk til liðs við Sampdoria á Ítalíu og fékk prýðilegan samning en hann er með um 74 milljónir króna í árslaun. Emil Hallfreðsson sem leikur með Verona er skammt undan með um 70 milljónir. Athygli vekur að Björn Bergmann Sigurðsson, leikmaður Wolves í ensku C-deildinni, er með há laun miðað við deild.

Áramót, tímarit Viðskiptablaðsins, kom út á mánudaginn. Í blaðinu eru auk umfjöllunarinnar um laun fótboltamanna, viðtal við Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra, Ásdísi Kristjánsdóttur hagfræðing, Þorstein Baldur Friðriksson, stofnanda Plain Vanilla, og Hugleik Dagsson svo dæmi séu nefnd. Þá er umfjöllun um veiði, Kardashian-hagkerfinu gerð skil. Að auki er margt, margt fleira....