*

Menning & listir 15. október 2014

Laus við sportbíladelluna

Myndlistarmaðurinn Hjalti Parelius hefur mikinn áhuga á bílum og sést það á nokkrum verkum hans.

Róbert Róbertsson

Hjalti Parelius hefur vakið mikla athygli fyrir verk sín en hann er hvað þekktastur fyrir olíumálverk þar sem teiknimyndamótífið er í forgrunni. Listmálarinn hefur mikinn áhuga á bílum og sést það í nokkrum verkum hans þar sem bílar eru viðfangsefnið ásamt andlitum af fólki.

„Mér finnst mjög gaman að fallegum bílum. Ég er alltaf hálf smeykur við ljóta bíla í umferðinni og reyni að passa mig á þeim,“ segir Hjalti og glottir.

„Ég hef átt marga skemmtilega bíla en í uppáhaldi er líklega Mazda RX 8 sem var gríðarlega skemmtilegur sportbíll. Ég er laus við sportbíladelluna núna og er mun spenntari fyrir jeppum. Það miðast að því að ég á konu og þrjú börn og fjölskyldan þarf mun meira pláss en fyrirfinnst í sportbílum. Nú verður maður að hugsa um aðra hluti en bara kraftinn og sportlega aksturseiginleika,“ segir Hjalti.

Bílasalinn líkur Lex Luthor

Spurður um hvernig bílamyndirnar hans urðu til svarar hann sposkur á svip: ,,Ég fékk þá hugmynd þegar ég var að mála Lex Luthor, helsta óvin Superman, því hann minnti mig svo á bílasala sem ég átti í viðskiptum við. Mér finnst mjög gaman að nota bílana sem efnivið í verkum mínum og ég á klárlega eftir að mála fleiri bílamyndir í framtíðinni,“ segir Hjalti.

Nánar er fjallað um málið í Bílablaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.


Stikkorð: Hjalti Parelius