*

Veiði 3. október 2014

Laxá á Ásum nær vopnum sínum

Alls veiddust 1.006 laxar í Laxá á Ásum í sumar eða 6,1 lax að meðaltali á stöng á dag.

Óhætt er að segja að Laxá á Ásum hafi borið höfuð og herðar yfir aðrar laxveiðiár í sumar. Laxveiðin í sumar hefur í sannleika sagt almennt verið afar döpur víðast hvar, með örfáum undantekningum þó. Ein af þessum undantekningum er þessi víðfræga tveggja stanga á í Austur-Húnavatnssýslu.

Á áttunda og níunda áratugnum veiddust iðulega vel yfir þúsund laxar í ánni á hverju sumri. Árið 1975 var sett met þegar 1.881 lax veiddist. Tíundi áratugurinn var góður en um aldamótin fór heldur að halla undan fæti og hefur veiðin ekki farið yfir þúsund laxa nema þrisvar síðan þá.

Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að tvö af þessum skiptum voru í fyrra og í ár. Í fyrra veiddust 1.062 laxar í ánni og í ár 1.006, sem er frábært, sérstaklega þegar haft er í huga að veiðin var víða almennt mjög slök. Þetta er einnig í fyrsta skiptið síðan árin 1992 og 1993, sem það veiðast yfir þúsund laxar í tvö ár í röð í ánni.

Þar sem aðeins er veitt á tvær stangir í ánni gefur augaleið að erfitt er að komast að, því framboð er lítið og þá eru veiðileyfin einnig með þeim dýrari á Íslandi. Til samanburðar er veitt á 18 og 20 stangir í Rangánum, 15 í Norðurá og 12 í Langá.

Ef við rýnum aðeins í tölurnar í sumar, þá veiddust 503 laxar á stöng á Ásunum eða 6,1 lax á dag að meðaltali, sem er ótrúleg veiði.

Salmon Tails hefur verið með ána á leigu síðan árið 2012. Arnar Agnarsson, einn eigenda fyrirtækisins, segir að meðalþyngd laxanna í sumar hafi verið um sex pund. Smálaxinn hafi verið einstaklega vel haldinn, feitur og flottur.

„Þessi mikla veiði hjá okkur undanfarin tvö ár hefur skilað því að kúnnarnir eru mjög sáttir enda er þegar orðið uppselt í ána næsta sumar," segir Arnar.


Nánar er fjallað um málið í Eftir vinnu, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Laxá á Ásum