*

Veiði 14. nóvember 2015

Laxá í Dölum tók stærsta stökkið

Veiðin í Dölunum jókst um 699% milli ára og í Langá jókst veiðin um 340%. Fjölmörg veiðimet voru sett.

Trausti Hafliðason

Síðasta laxveiðisumar var eitt það besta frá því farið var að taka saman tölur um veiði árið 1974. Eins og Viðskiptablaðið hefur þegar greint frá var Laxá á Ásum í sérflokki þegar veiði á stöng er skoðuð. Þar veiddust hvorki meira né minna en 898 laxar á stöng.

Sú á sem tók stærsta stökkið milli ára var aftur á móti Laxá í Dölum. Í fyrra veiddust aðeins 216 laxar í ánni eða 37 laxar á stöng í ár veiddust aftur á móti 1.578 laxar eða 298 á stöng. Veiðin jókst því um 699% milli ára í Dölunum. Veiðin í Langá jókst einnig gríðarlega milli ára eða um 340%. Hún fór úr 52 löxum á stöng í 227. Síðasta sumar var það þriðja besta í Langá frá því mælingar hófust árið 1974.

Nýtt veiðimet var sett í Miðfjarðará í sumar. Alls veiddust 6.028 laxar en gamla metið var sett árið 2010, þegar 4.043 laxar veiddust. Miðfjarðará er í öðru sæti yfir þær ár sem skiluðu flestum löxum á stöng síðasta sumar, eða 655. Sumarið 2014 veiddust 175 laxar á stöng í ánni og jókst veiðin því um 275% milli ára.

Met var setti í fleiri ám síðasta sumar. Í Blöndu veiddust 4.829 laxar en gamla metið var sett árið 2010 þegar 2.777 laxar veiddust. Blanda er í fjórða sæti á listanum yfir þær ár sem skiluðu flestum löxum á stöng eða 399. Nýtt veiðimet var líka sett í Hrútafjarðará og Síká. Þar veiddust 860 laxar á þrjár stangir eða 287 laxar á stöng. Gamla metið var ekki svo gamalt. Það var sett árið 2013 þegar 702 laxar veiddust í ánni. Veiðimet var einnig sett í Jöklu en þar veiddust 815 laxar í sumar eða 136 á stöng. Gamla metið var frá 2011 þegar 507 laxar veiddust í ánni.

Þrjár ár dala milli ára

Einungis þrjár af ánum fimmtíu döluðu á milli ára — voru með lélegri veiði sumarið 2015 en sumarið 2014. Þetta eru Krossá á Skarðsströnd, Stóra-Laxá og Hofsá. Í Krossá veiddust 93 laxar (47 á stöng) í sumar samanborið við 115 í fyrra. Í sumar veiddust 654 laxar (65 á stöng) í Stóru-Laxá en 882 í fyrra. Í Hofsá veiddust 515 laxar (57 á stöng) í sumar en 657 í fyrra.

Að lokum má geta þess að í Laxá í Aðaldal veiddust 68 laxar á stöng í sumar eða alls 1.201 lax. Einhverjum kann að finnast þetta frekar döpur veiði en hún er það í raun ekki. Síðasta sumar var nefnilega þriðja besta árið í Aðaldal frá 1998. Í Laxá í Aðaldal eru veiðimenn heldur ekki endilega að sækjast eftir sem flestum löxum heldur miklu frekar þeim stóra, enda meðalþyngd laxa í ánni mjög há.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: stangveiði  • laxveiði