*

Veiði 1. september 2016

Laxar í felum

Vatnsleysi, sólskin og mikill hiti hefur litað veiðina á Suðvestur- og Vesturlandi í sumar.

Trausti Hafliðason

Frá því í snemma sumar hefur varla rignt svo nokkru telji á Suðvesturlandi og mjög lítið á Vesturlandi. Hefur þetta haft mikil áhrif á laxveiðina í þessum landshlutum því þar eru margar ár orðnar mjög vatnslitlar. Þá hefur hátt hitastig og sólskin einnig haft neikvæð áhrif á veiðina. Í þeim aðstæðum hreyfa laxar sig lítið og leita gjarnan í skugga. Myndirnar sem fylgja þessari frétt voru teknar við Nátthagahyl í Andakílsá í síðustu viku. Þegar þær eru skoðaðar má sjá lax fela sig inni í einskonar móbarðshelli.

Fram að þessu hefur veiðin Suðvestur- og Vesturlandi almennt verið töluvert lélegri en í fyrra en þá verður líka að hafa í huga að veiðin sumarið 2015 var með eindæmum góð. Heilt yfir var veiðin í fyrra sú fjórða besta síðan byrjað var að taka saman tölur um laxveiði árið 1974.

 

Frábær veiði í Dalabyggð

Þó segi megi að almennt hafi veiðin verið lélegri nú en í fyrra á Suðvestur- og Vesturlandi eru undantekningar því þegar tölur úr völdum ám eru skoðaðar kemur í ljós að árnar í Dalabyggð hafa skilað verulega góðri veiði. Veiðin í Laxá í Dölum og Haukadalsá er til að mynda betri en hún var í fyrra. Þann 24. ágúst höfðu veiðst 902 laxar í Laxá í Dölum samanborið við 890 á svipuðum tíma árið 2015. Haukadalsá hefur reyndar skilað miklu betri veiði en í fyrra. Þann 24. ágúst hafði veiðst 851 lax þar samanborið við 488 laxa á svipuðum tíma í fyrra.

Árið 2014 var mjög lélegt veiðiár eða versta laxveiðiár frá árinu 2001. Það er því fróðlegt að bera veiðina í þessum völdu ám á Suðvestur- og Vesturlandi saman við veiðina 2014. Þegar það er gert kemur í ljós að allar árnar nema tvær hafa skilað betri veiði nú en þá. Einu tvær árnar sem hafa skilað færri löxum nú en árið 2014 eru Laxá í Kjós og Leirvogsá. Reyndar er munurinn mjög lítill. Þann 24. ágúst hafði veiðst sjö löxum minna í Laxá í Kjós en á svipuðum tíma árið 2014 og í Leirvogsá hafði veiðst 9 löxum minna.

Veiðin í Laxá í Dölum er ríflega sexfalt betri nú en árið 2014 og í Haukadalsá er hún ríflega fimmfalt betri. Í Þverá og Kjarrá er veiðin 59%  betri nú en á sama tíma 2014. Í Norðurá er hún 39% betri en árið 2014, í Haffjarðará 59% betri, í Langá er veiðin 133% betri, í Hítará er hún 87% betri, í Grímsá og Tunguá er veiðin 10% betri og í Laxá í Leirársveit er hún 20% betri.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: stangaveiði  • laxveiði  • lax