*

Veiði 12. maí 2018

Laxveiðin hefst 27. maí

Stangaveiði hefst í Þjórsá eftir um tvær vikur en áin var ein af spútnik ám síðasta árs.

Trausti Hafliðason

Um árabil hófst laxveiðitímabilið þegar veiði hófst í Norðurá og Blöndu. Í fyrra varð breyting á þegar byrjað var að veiða á stöng í Urriðafossi í Þjórsá 1. júní. Óhætt er að segja að sú tilraun hafi tekist vel því síðasta sumar veiddust 755 laxar á tvær stangir á Urriðafosssvæðinu eða tæpir 378 laxar á stöng. Þessi niðurstaða þýddi að Urriðafoss varð í þriðja sæti yfir þær ár sem skiluðu flestum löxum á stöng í fyrra. Einungis Miðfjarðará (418 laxar á stöng) og Ytri-Rangá (390) voru með með betri veiði.

Kaupa upp netin

Fyrirtækið Iceland Outfitters, sem er í eigu hjónanna Stefáns Sigurðssonar og Hörpu Hlínar Þórðardóttur, selur veiðileyfi í Þjórsá. Stefán segir að núna hefjist veiði í Þjórsá sunnudaginn 27. maí.

„Það var komið fullt af laxi þarna í maí þannig að við höfum ákveðið að prófa að byrja enn fyrr en í fyrra,“ segir Stefán. „Veiðin í fyrra var frábær alveg frá byrjun og fram undir miðjan ágúst en þá fór aðeins að hægja á. Hún tók síðan aftur kipp í september.“

Stefán segir að ótrúlega vel hafi gengið að selja veiðileyfi í Þjórsá. Leyfi í maí og júní séu uppseld og nánast öll leyfi í júlí sömuleiðis. Nokkuð sé til af lausum leyfum í ágúst.

„Núna höfum við ákveðið að kaupa upp öll net á þessu svæði Þjórsár. Þetta hefur verið mjög fengsæl netaveiði þannig að það er dýrt að kaupa upp netin. Við stóðum því frammi fyrir því að annaðhvort hækka verð á leyfum mjög mikið eða fjölga stöngum. Við ákváðum að fjölga stöngum í fjórar og í sumar verður því veitt á tvær stangir í Urriðafossi og tvær á milli brúa.“

Stefán segir að í sumar muni tilraunaveiðar á austurbakkanum hefjast. „Það verður mjög spennandi að sjá hvernig það gengur.“

Þjórsá er mikið fljót og segir Stefán að veiðimenn verði að fara mjög varlega og alls ekki vaða. „Þú dettur bara einu sinni í Þjórsá,“ segir hann. 

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is