*

Veiði 10. júlí 2012

Laxveiðin virði 3,2 milljarða

Byggðaráð Borgarbyggðar vill kanna vannýtt tækifæri í stangveiðinni.

Efnahagslegt virði laxveiðiánna í Borgarbyggð er áætlað 3,2 milljarðar króna. Er þar tekið tillit til beinna, óbeinna og afleiddra áhrifa. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Í fundargerð byggðaráðs kemur fram að í lokaverkefni Önnu Steinsen til BS-gráðu í viðskiptafræði frá 2011 sé laxveiði í Borgarbyggð talin rúmlega fjórðungur af heildarlaxveiði af náttúrulegum stofnum á Íslandi á árunum 1974-2009. Fjórar af tíu fengsælustu laxveiðiám á Íslandi eru í sveitarfélaginu.

Samkvæmt fréttinni er eignarhald á veiðijörðum að færast úr héraðinu. Árið 1990 var hlutfall eigenda veiðijarða með lögheimili utan sveitarfélagsins 27% en 41% árið 2009.

Kanna á umfang og samfélagsleg áhrif af hálfu byggðaráðs Borgarbyggðar á næstunni. Meðal annars á að kanna vannýtt sóknarfæri í stangveiði, hversu stór hluti starfa í beinum tengslum við stangveiði er unninn af heimamönnum og sömuleiðis hversu stór hluti af aðföngum og þjónustu er keyptur innan héraðs. Einnig  á að líta til möguleika á að efla hlut sveitarfélagsins og íbúa þess í auðlindinni, svo sem með aukinni atvinnuþátttöku, verslun og þjónustu.

 

Stikkorð: Laxveiði  • Langá