*

Jólin 19. nóvember 2017

Leggur áherslu á afslöppuð jól

Berglin lætur jólasteikina eldast á meðan hún fer í jólasund.

Kolbrún P. Helgadóttir

Gulur, rauður, grænn & salt, ein vinsælasta uppskriftasíða landsins, fagnar fimm ára afmæli um þessar mundir og af því tilefni var að koma út ný bók undir sama nafni. Berglind Guðmundsdóttir, sem er mikið jólabarn, deilir hér með okkur uppskriftum úr bókinni með hátíðlegu ívafi.

Í þessari girnilegu matreiðslubók býður Berglind, stofnandi síðunnar, upp á nýjar og einfaldar uppskriftir að töfrandi og litríkum réttum frá öllum heimshornum. Uppskriftirnar eru í anda vefsíðunnar og áhersla lögð á einfaldleika, fá hráefni og fjölbreytni. Berglind segir að í bókinni megi finna uppskriftir við allra hæfi sem allir ættu að ráða vel við, jafnvel þeir sem eru að stíga sín fyrstu spor í eldhúsinu. Bókin er algjört augnayndi með fallegum og litríkum mat sem kitlar svo sannarlega bragðlaukana.

Mikill aðdáandi jólanna
Þessi mikli ástríðukokkur segir jólin hefjast á aðventunni og jafnvel aðeins fyrr. „Ég er mikill aðdáandi jólanna og reyni að teygja þennan tíma eins og ég get enda nautnaseggur og mikið jólabarn. Á þessum tíma elska ég að rölta um miðbæinn okkar, fara inn á kaffihús eða í bókabúðir og fá mér heitt kakó, jafnvel með smá glöggi nú eða hitta góða vini í smurbrauð. Ég hef voðalega gaman af því að fara á tónleika en litlir persónulegir og lágstemmdir tónleikar heilla meira en hitt.“

Jólin orðin afslappaðri
Fyrir Berglindi eru jólin tími til að slaka á með þeim sem henni þykir vænt um. „Svo er ekki verra ef maður getur lagt sitt að mörkum til að gera líf einhvers aðeins betra. Því þegar öllu er á botninn hvolft er það það sem jólin snúast um.“ Berglind segir að í minningunni hafi allt verið óaðfinnanlegt. „Heimilin voru sótthreinsuð, það voru bakaðar ákveðið margar tegundir af smákökum og mæðurnar sofnuðu ofan í súpudisknum á aðfangadag. Ég held sem betur fer að hlutirnir séu orðnir afslappaðri. Að minnsta kosti vona ég það, að hægt sé að njóta jólanna án þess að búið sé að gera allt. Sjálf legg ég mikla áherslu á afslöppuð jól. Fallega tónlist, kertaljós, seríur, góðan mat. Svo finnst mér voða gaman ef það næst að kaupa ný náttföt á alla fjölskyldumeðlimina.“

Heldur ekki fast í hefðir
Spurð hvort hún haldi fast í jólahefðir úr uppeldinu segir hún svo ekki vera. „Eftir því sem ég eldist legg ég minni og minni áherslu á að halda í einhverjar hefðir. Núna elda ég einfaldan og áreynslulítinn mat. Yfirleitt einhvers konar mat sem sem ég get unnið í haginn. Byrjað snemma að elda og láta eldast í ofninum á meðan við fjölskyldan förum i jólasund eða göngutúr og keyrum út pakkana. Reyndar er ein falleg hefð sem ég held fast í og það er að hlusta á messuna þegar klukkan slær sex. Einnig er það fastur punktur í aðventunni að baka sörur með vinkonunum.“ Berglind segir jólagjafirnar vera orðnar aukaatriði á jólunum þó svo að vissulega sé gaman að fá eitthvað sem hitti í mark. „Persónulega þykir mér líka ofsalega gaman að fá skemmtileg jólakort með fallegum texta. Það gleður alltaf mikið.“

 

Uppskriftir úr bókinni Gulur, rauður, grænn & salt;

Kanilþeytingur með karamellubragði
2 þroskaðir bananar, frosnir
10 döðlur, steinlausar
1⁄2 tsk. vanilluduft
1 msk. möndlusmjör
1⁄2 tsk. kanill
2 dl möndlumjólk (eða mjólk að eigin vali)
klaki

Setjið öll hráefnin í blandara og blandið vel saman. Hellið í glös og njótið. Prófið að skipta möndlusmjörinu út fyrir hnetusmjör.

 

 

Salat með pekanhnetum, vínberjum og heitum parmabrie fyrir 4
Tími: 20 mínútur
16 sneiðar parmaskinka
2 x 100 g brie ostur
1 poki blandað salat
60 g pekanhnetur
20 græn vínber, skorin langsum
2 msk. balsamik edik
2 msk. sýróp
Þurristið hneturnar á pönnu.

Gott er að nota vægan hita, hneturnar eiga að taka lit en ekki brenna.
Skerið hvorn ost í 2 hluta. Vefjið parmaskinkusneiðunum þétt utan um hvert oststykki. Steikið parmaostinn á þurri og vel heitri pönnu. Snúið bitunum reglulega á pönnunni og steikið í um 6 mínútur alls. Hrærið balsamik ediki og sírópi saman.
Skiptið salatblöndunni á 4 diska, látið pekanhnetur og vínber yfir salatið og síðan parmaostinn. Dreypið balsamiksýrópinu yfir allt.

 

Hafraklattar með súkkulaði, hnetusmjöri og saltkringlum 20 stk.
Tími: 40 mínútur 

200 g saltkringlur, saxaðar
200 g tröllahafrar
250 g súkkulaðidropar
250 g hnetusmjör,
mjúkt 30 g kókosmjöl
2 msk. kókosolía, við stofuhita

Setjið öll hráefnin saman í pott. Hitið við lágan hita í 5 mínútur eða þar til allt hefur blandast vel saman. Setjið smjörpappír á ofnplötu. Notið tvær matskeiðar til að móta klattana á ofnplötuna. Setjið í kæli í 20 mínútur eða þar til þeir eru farnir að harðna. Geymið í loftþéttum umbúðum í kæli eða frysti. TIPS: Klattana þarf ekki að baka og þeir geta því verið tilbúnir á núll einni!