*

Menning & listir 7. apríl 2017

Leggur allt undir

Landslag í útgáfumálum hefur tekið töluverðum breytingum með tilkomu hópfjármögnunarsíða á borð við Karolina Fund.

Kolbrún P. Helgadóttir

Tónlistarmenn hafa nýtt sér þetta í miklum mæli með góðum árangri og nú eru rithöfundar farnir að fylgja fast í kjölfarið og árangurinn lofar góðu. Ein þeirra sem er að nýta sér kosti fjármögnunar er Þóra Sigurðardóttir, rithöfundur, sem hyggst gefa sjálf út bók sína Foreldrahandbókin, sem kom upphaflega út fyrir sjö árum.

 

Uppseld í nokkur ár

„Þá fórum við hefðbundna leið í samstarfi við forlag og það gekk afskaplega vel. Bókin hlaut góðar viðtökur og hefur verið uppseld í fjölda ára. Það stóð alltaf til að uppfæra bókina og bæta við hana en vegna annarra verkefna komst ég aldrei í það,” segir Þóra.

„Það blundaði líka í mér að gera það sjálf. Ég hef lengi verið viðloðandi rekstur og er mjög hrifin af því að vera sjálfstæður atvinnurekandi. Í mínu tilfelli er aðkoma annarra í lágmarki þar sem ég brýt bókina sjálf um og hanna,” segir hún en fyrir utan að hanna upphaflegu Foreldrahandbókina hefur hún hannað fjölda bóka á borð við Heilsurétti fjölskyldunnar. „Ég á líka samnefnda heimasíðu sem hefur alltaf verið vel sótt. Jafnframt rek ég vefverslunina Nostr þannig að það blasti við að þetta yrði ekki svo flókið. Stóra málið er að fjármagna útgáfuna en við erum að fara nokkrar leiðir og heldur óhefðbundnar verður að segjast,” segir hún en vill lítið gefa uppi um það að svo stöddu.

 

Bókin á helmingsafslætti

Einn hluti fjármögnunarinnar er hópfjármögnunin en þar hafa væntanlegir kaupendur kost á að kaupa hana með nærri helmingsafslætti. „Þarna er milliliðurinn tekinn út og því hægt að bjóða bókina á sannkölluðum vildarkjörum. Það hefur mælst vel fyrir og söfnunin er á öruggu skriði. Þetta er líka hin fullkomna gjafabók þannig að það væri ekkert vitlaust fyrir einstaklinga eða fyrirtæki að fjárfesta í nokkrum eintökum til að eiga í gjafir.” Að sögn Þóru er það nokkuð taugatrekkjandi að taka þátt í hópfjármögnun. „Já, ég viðurkenni það fúslega en ég trúi á verkefnið. Bókin hefur sannað sig og í hana skrifa allir helstu sérfræðingar landsins á þessu sviði þannig að ég veit að varan er góð. Nú er bara að fjármagna verkefnið og hrinda því úr vör.”

Tryggðu þér eintak hér:
https://www.karolinafund.com/project/view/1671