*

Bílar 27. nóvember 2019

LEGO gerir stólpagrín að nýjum Teslabíl

Leikfangaframleiðandinn LEGO hefur birt Facebook færslu þar sem gert er stólpagrín að Cybertruck, nýjasta bíl Tesla.

Óhætt er að segja að nýjasti bíll í bílaflota Tesla, svokallaður Cybertruck, hafi vakið athygli víða um heim. Bílinn, sem er eiginlegur pallbíll, var kynntur við mikla viðhöfn í síðustu viku. 

Viðburðarins verður helst minnst fyrir nokkuð vandræðalegt augnablik, en Elon Musk forstjóri Tesla fullyrti að rúður bílsins væru svo sterkar að ómögulegt væri að brjóta þær. Til að sýna fram á það bað Musk aðstoðarmann sinn að grýta stálkúlu í rúður bílsins. Það fór þó ekki betur en svo að myndarlegar sprungur mynduðust í rúðurnar, líkt og sjá má á myndinni hér að neðan. Musk má þó eiga það að rúðurnar brotnuðu ekki í þúsund mola líkt og hefði gerst við rúður flestra bifreiða við sömu aðstæður.

 

En eitt er ljóst að sitt sýnist hverjum um útlit og hönnun bílsins og hafa m.a. fjölmargir spéfuglar gert grín að bílnum á samfélagsmiðlum. Danski leikfangaframleiðandinn LEGO hefur, eins og svo margir aðrir, sína skoðun á bílnum, en Facebook færsla fyrirtækisins, sem sjá má hér að neðan, hefur vakið mikla kátínu netverja. Í umræddri færslu hæðist leikfangaframleiðandinn að nýjasta meðlimi Tesla-fjölskyldunnar. Í færslunni er mynd af hefðbundnum og fábrotnum LEGO-kubb sem búið er að festa fjögur hjól undir. Í texta við myndina kynnir LEGO framtíðarbíl til leiks og segir hann óbrjótanlegan.

Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um á dögunum þá hafa tæplega 150 þúsund forpantanir borist fyrir nýja pallbílnum. Forpöntun kostar þó aðeins 100 Bandaríkjadali, rúmar 12 þúsund krónur, og er endurgreiðanleg.      

Stikkorð: Tesla  • Cybertruck  • LEGO