*

Hitt og þetta 15. júlí 2013

Legó-vatnsrennibrautagarður í Malasíu

Fyrsti Legó-vatnsrennibrautagarðurinn opnar í Asíu nú í haust.

Þeir eru tveir í Bandaríkjunum og nú bætist sá þriðji við en 21. október næstkomandi opnar fyrsti vatnsrennibrautagarðurinn undir merkjum Legó í Asíu, nánar tiltekið í Malasíu.  Og hann verður sá stærsti í heimi en garðurinn verður 300 þúsund fermetrar svo það verður fjör fyrir foreldra að elta börn sín um garðinn.

Í garðinum verða vatnrennibrautir og sundlaugar að sjálfsögðu en það sem vekur mest athygli er á sem rennur um garðinn þar sem börnum mun gefast tækifæri til að byggja sína eigin báta úr legókubbum.

Fyrir litlu börnin verður sérstakt dúpló-leiksvæði  með minni rennibratum og alls konar dýrum byggðum úr dúplókubbum. Og unglingarnir munu kannski vilja sitja eftir heima því garðurinn er sniðinn að þörfum 2 til 12 ára barna.

CNN segir nánar frá málinu á vefsíðu sinni.