
Portúgalar geta komið sér út úr kreppunni með framleiðslu og útflutningi á vörum sem fólk þarf á að halda; klósettpappír af dýrari sortinni og hágæðaskóm. Þetta segir Luís Saramago, markaðsstjóri portúgalska pappírsvöruframleiðandans Renova. Fyrirtækið framleiðir pappírsþurrkur og annað þesslags í ýmsum litum og er fyrirtækið stærst á sínu sviði í landinu.
Saramago segir í samtali við breska viðskiptadagblaðið Financial Times Portúgala ekki eiga að taka niður fyrir sig og láta reyna á útflutning á ódýrum vörum heldur hágæðavöru. Nóg er af ódýru vinnuafli í heiminum, að hans sögn.
Í Financial Times er bent á að Renova framleiði m.a. Renova Black, sérhannaðan klósettpappír sem hafi áunnið sér virðingarsess utan Portúgals. Á meðal þekktra aðdáenda skeinipappírsins er breski tónlistarspekúlantinn Simon Cowell.
Í umfjöllun Financial Times er jafnframt rætt við Jorge Correia, stofnanda skófyrirtækisins Helsar. Fyrirtækið framleiddi m.a. skó sem tengdamóðir Vilhjálms Bretaprins var í þegar hann kvæntist Kate Middleton í fyrra. Mágkona hans Pippa Middleton var í eins skóm og móðir sín og hafa þeir selt vel. Correia segir í samtali við blaðið nokkra viðskiptavini hafa áður fyrr óskað eftir því að fá að setja miðann „Made in Italy“ á skóna í stað Portúgals. Hann segi allt slíkt af og frá og bendir á að nú sé staðan orðin slík að skór frá Portúgal séu komnir með svipaðan gæðastimpil og skór frá Ítalíu.
Skór frá Helsar.
Svartur klósettpappír frá Renova. Hann má jafnframt fá í fleiri litum.