*

Ferðalög & útivist 25. mars 2013

Leifur Örn stefnir á Everest

Spennandi verkefni að ganga á Everest, segir fjallgöngugarpurinn Leifur Örn Svavarsson.

,,Það er kominn heilmikil tilhlökkun og spenningur í mig fyrir þennan leiðangur. Þetta verður krefjandi en á sama spennandi verkefni. Ég stefni að því að ganga norðanmegin á fjallið frá Tíbet sem nú er hluti af Kína,“ segir Leifur Örn Svavarsson sem stefnir að því að klífa norðurhlið Everest í apríl nk. og verða fyrsti Íslendingurinn til að gera slíkt. Leifur Örn er þaulreyndur þegar kemur að fjallgöngum og hefur klifið nokkra af hæstu tindum heims. Hann er einn af stofnendum Íslenskra Fjallaleiðsögumanna.

Fram kemur í tilkynningu að Leifur Örn verður með fyrirlestur í verslun 66°Norður í Faxafeni annað kvöld, þ.e. þriðjudagskvöldið 26. mars, kl. 20 og mun hann þar kynna Everest leiðangur sinn.

Leifur Örn mun þar fara yfir undirbúninginn og þær áskoranir sem framundan eru í leiðangrinum. Hann mun einnig sýna þann útbúnað sem þarf í leiðangur sem þennan og hvernig hann hefur undirbúið sig líkamlega og andlega. 66°Norður styrkir Leif Örn með fatnaði í ferðina og hefur m.a. sérframleitt fatnað fyrir þessar krefjandi aðstæður.