*

Veiði 1. desember 2013

Leigði laxveiðiá fyrir 15 milljónir en átti ekki krónu

Árni Baldursson í Lax-á rekur eitt umsvifamesta fyrirtækið á laxveiðimarkaðnum. Hann fletti upp í símaskrá til að leita fjárfesta.

Trausti Hafliðason

Þegar Árni Baldursson tók Laxá í Kjós á leigu fyrir 26 árum átti hann ekki krónu. Árni á fyrirtækið Lax-á og er það nú orðið eitt umsvifamesta fyrirtækið á laxveiðimarkaðnum hér á landi og var um tíma með ár á leigu víðs vegar um heiminn.

Fram kemur í ítarlegu viðtali við Árna í Viðskiptablaðinu að hann var aðeins 17 ára þegar hann leigði sína fyrstu á en það var Laxá og Bæjará í Reykhólasveit. Árið 1987 urðu straumhvörf í lífi Árna. Hann var á 24. aldursári þegar Laxá í Kjós var boðin út.

„Ég bauð í hana, eins og frægt var á þeim tíma,“ segir Árni. „Ég átti enga peninga á þessum tíma, ekki eina krónu, en bauð samt 15 milljónir í ána. Ég hafði hárrétta tilfinningu fyrir þessu útboði því ég var hæstur og rétt aðeins hærri en sá næsti. Ég fékk hringingu frá Veiðifélagi Kjósarhrepps þar sem mér var tilkynnt að ég þyrfti að reiða fram þessar 15 milljónir eða ábyrgð fyrri þeim. Þá vandaðist málið því ég hafði engum sagt að ég hafði boðið í ána, ekki einu sinni fjölskyldunni. Ég hélt neyðarfund með mínum nánustu en það var auðvitað ekkert til, engir peningar. Þá tók ég símaskrána og fletti upp símanúmerum hjá tveimur valinkunnum mönnum, þeim Skúla Jóhannessyni í Tékk-Kristal og Bolla Kristinssyni í Sautján. Ég þekkti þessa menn ekki neitt, hafði aldrei talað við þá, en bað þá samt um að hitta mig á fundi. Þeir samþykktu það og ég kynnti fyrir þeim mína hugmynd. Þeim leist svo vel á þetta að þeir reiddu fram peningana. Þarna varð fyrirtækið Lax-á til.“

Fyrsta sumar Árna með Laxá í Kjós var ótrúlegt. Algjör metveiði varð í ánni og veiddust yfir 3.422 laxar sem var fáheyrt því aldrei áður hafði veiðst svo mikið í ánni. Reyndar hafði aldrei veiðst svo mikið í nokkurri laxveiðiá á Íslandi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.

Stikkorð: Laxá í Kjós  • Lax-á  • Árni Baldursson