*

Menning & listir 26. ágúst 2016

Leika, skoða og skapa á Akureyri

„Gestir út um allt" verður hápunktur Akureyrarvöku á laugardagskvöld.

Eydís Eyland

Akureyrarvaka fer fram um helgina, dagana 26-28 ágúst. Hátíðin verður sett í Lystigarðinum kl. 21:00. Meðal gesta sem koma fram eru hljómsveitin Herðubreið, kammerkórinn Hymnodía og Karlakór Akureyrar-Geysir. Slökkt verður á öllum götuljósum í elsta hluta bæjarins og púkar og forynjur fara á stjá til að skjóta fólki skelk í bringu. Þema Akureyrarvöku er að þessu sinni „leika, skoða, skapa“.

Á laugardag ætlar prúðbúið fólk að hjóla saman um bæinn í svokallaðri Tweed Ride og leggur upp í ferðina frá Akureyrarkirkju. Veitt verða verðlaun fyrir bestklædda herrann, dömuna og fallegasta fararskjótann. Tónleikar, markaðsstemning og alls kyns uppákomur verða síðan um allan miðbæinn, í Listagilinu og á Ráðhústorginu fram undir kvöld þegar dagskráin hefst í Listagilinu. Hápunktur Akureyrarvöku verður svo á laugardagskvöld þegar skemmtidagskráin „Gestir út um allt“ verður send út beint í Sjónvarpinu, N4 og Rás 2.

Stikkorð: Akureyri  • Akureyrarvaka