*

Tölvur & tækni 2. desember 2011

Leikjafyrirtækið Zynga metið á 1.000 milljarða króna

Tæknifyrirtæki í Bandaríkjunum hafa hvert á fætur öðru farið á markað vestanhafs. Nú eru framleiðendur FarmVille á leiðinni.

Stjórnendur bandaríska tölvuleikjafyrirtækisins Zynga eru sagði íhuga að selja 11,1% hlut í fyrirtækinu í almennu hlutafjárútboði. Miðað við áætlanir gæti markaðsverðmæti fyrirtækisins numið 9 milljörðum dala, jafnvirði 1.000 milljörðum íslenskra króna.

Gengi hluta í útboðinu er á bilinu 8,5 til 10 dalir á hlut samkvæmt skráningarlýsingu sem birt var í Bandaríkjunum í gær.

Gangi allar væntingar Zynga-liða eftir gæti skráning fyrirtækisins orðið sambærileg við skráningu netrisans Google fyrir sjö árum.

Fyrirtækið Zynga var stofnað fyrir fimm árum. Þekktasti leikur fyrirtækisins er FarmVille sem spilaður er í gegnum Facebook.

Ekkert kostar að spila leiki Zynga. Tekjur fyrirtækisins koma frá sölu hluta í leikjunum, svo sem vopnum.

Risarnir á tölvuleikjamarkaðnum eru Activion Blizzard sem metið er á 14,2 milljarða dala. Þar á eftir kemur Electronic Arts sem metið er á 7,7 milljarða dala, samkvæmt Reuters-fréttastofunni.

Stikkorð: FarmVille  • Zynga  • Tölvuleikur