*

Tölvur & tækni 26. desember 2013

Leikjatölvan tekur yfir sjónvarpskrókinn

Tæknirisarnir Sony og Microsoft hafa gefið út nýjar leikjatölvur, Playstation 4 og Xbox One.

Næsta kynslóð leikjatölvaruddi sér til rúms á seinnihluta árs 2013, þegar PlayStation 4 og Xbox One tölvurnar komu á markað með aðeins tveggja vikna millibili í nóvember. Orrusta Sony, framleiðanda PlayStation, og Microsoft, sem framleiðir Xbox, hefur því harðnað á nýjan leik.

Langt er liðið frá útgáfu síðustu kynslóða, Xbox 360 var útgefin árið 2006 og Playstation 3 rúmu ári seinna. „Annað skref inn í framtíðina“ segja sumir og ljóst er að fyrir fyrirtækjunum vakir margt annað en að ná til leikjanarða heimsins. Microsoft vill koma sér fyrir sem miðstöð í sjónvarpsherberginu, leyfa eigendum Xbox One að tala við önnur raftæki í gegnum vélina og svara mömmu á Skype meðan horft er á sjónvarpið.

Microsoft samþættirsjónvarpskrókinn

Þegar fyrirrennarar Xbox Oneog PlayStation 4 komu á markað þóttu þeir stórt stökk frá því sem þekktist. Sama er uppi á teningnum í dag og sjá margir tæknifjölmiðlar sjálfa framtíðina birtast fyrir augum sér. Allir teljandi fjölmiðlar sem sérhæfa sig í tölvum og tækni hafa prófað og gagnrýnt vélarnar og reynt eftir fremsta megni að greina kosti þeirra, galla og möguleika þeirra til lengri tíma litið. Síðastnefnda atriðið skiptir ekki síst máli þar sem tölvurnar verða vafalaust lengi á markaði án þess að vélbúnaði þeirra verði umbylt.

Sitt sýnist hverjum um hvor tölvan sé betri í dag. Óhætt er þó að fullyrða að Xbox One hefur komið meira á óvart heldur en PlayStation 4. Hvað tölvuleiki varðar þá þykir grafíkin betri í PlayStation 4. Í herbúðum Microsoft anda menn þó rólega enda er vél þeirra ætlað að vera miklu meira en eingöngu leikjatölva.

Með Xbox One vill Microsoft vera sólin í sólkerfinu, eða öllu heldur stofunni. Að ekkert raftæki þrífist nema kveikt sé á tölvunni, notandanum til góðs, jafnvel þótt tölvuleikjaspilun komi hvergi nærri. Til að vélin geti verið þungamiðja sjónvarpsherbergisins hefur Microsoft betrumbætt Kinect Sensor, hreyfiskynjara sinn, til muna og býður notendum að tengja afruglarann við leikjatölvuna.

„Xbox, kveiktu á þér”

Í þessum tengingarmöguleikum felast yfirráð Xbox One í stofunni. Kinect-hreyfiskynjarinn vinnur sem augu og eyru tölvunnar og sendir skipanir til annarra raftækja. Þegar skynjarinn er tengdur er hægt að tala við tölvuna og skipa henni fyrir. Hann hefur verið á markaði frá árinu 2010 en nær nýjum hæðum tengdur Xbox One. Með viðmótinu fylgir Microsoft þeirri þróun sem þekkist á markaði snjallsímanna, þar sem stærstu framleiðendur hafa veðjað á að notendur noti munnlegar skipanir í auknum mæli.

„Xbox, kveiktu á þér,“ er það fyrsta sem Xbox One vill heyra þegar einhver sest fyrir framan sjónvarpið. Tölvan þekkir þig í sjón og ef margir sitja fyrir framan skjáinn þá þarf eingöngu að rétta upp hönd til þess að hún viti hver ræður. Hvort sem spila á tölvuleiki, horfa á sjónvarpsstöðvar eða Netflix eða hringja í vin í gegnum Skype þá er bara að segja Xboxinu það. Og það hlýðir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér

Stikkorð: Xbox  • Playstation