*

Hitt og þetta 30. nóvember 2004

Leiknir í sókn

Knattspyrnufélagið Leiknir mun um áramótin hefja framkvæmdir á tveimur nýjum fótboltavöllum á vallarsvæði sínu í Breiðholti. Fyrir er Leiknir einungis með einn keppnisvöll og einn gervigrasvöll og óhætt að segja að löngu sé tímabært að aðstaða félagsins verði betrumbætt enda félagsmenn orðnir yfir 300 talsins. "Stefnt er á að svæðið verði tilbúið næsta vor," segir Arnar Einarsson, formaður Leiknis.

Hann segir þó að nýju vellirnir verði ekki nothæfir fyrr en sumarið 2006 og verði Leiknismenn því að bíða um sinn. En hvað kosta framkvæmdirnar? Arnar segir að þó svo heildarkostnaður sé ekki ljós, þar sem verkið hefur enn ekki verið boðið út, geri hann ráð fyrir að heildarkostnaður muni verða á bilinu 45 til 50 milljónir króna. Og hver borgar? "Reykjavíkurborg borgar en það er hluti af samkomulagi sem gert var á milli borgarinnar og Leiknis," segir hann og bætir við að ekki sé svæðið þó tilbúið fyrr en félagið hafi eignast sitt eigið Leiknishús. "Við þurfum að komast úr þessum skúr sem við erum í núna. Hér þarf að rísa hús með að minnsta kosti fjórum búningsklefum, fundaraðstöðu, skrifstofum og annari aðstöðu sem fylgir svona rekstri. Þá vantar okkur einnig áhorfendastúku en allt þetta kostar þó peninga sem eru ekki til í dag en ég hef þó trú á að húsið og stúkan komi á næstu árum. Þá verður þetta orðið gott og starfið ætti að geta blómstrað áfram," segir Arnar.


Vilja ekki sameinast ÍR

Leiknismönnum hefur fundist þeir útundan miðað við það sem gert hefur verið fyrir önnur knattspyrnufélagið á höfuðborgarsvæðinu. "Það sjá allir sem hingað koma að aðstaðan hefur verið ábótavant sérstaklega í ljósi þess hve margir stunda hér fótbolta enda um stórt og mikið barnahverfi að ræða," segir Arnar. "Hvers vegna aðstaðan hefur ekki verið bætt fyrr er í raun sú að fjárhagur félagsis var ekki góður og félagsmenn og íbúar Breiðholts hafa ekki verð nógu meðvitaðir um að standa á sínum rétti," segir hann. Mikið hefur verið rætt um sameiningar knattspyrnufélaga og lengi vel hefur verið talað um að ÍR og Leiknir sameinist. Mikill rígur hefur þó verið á milli þessara Breiðholtsliða og alltaf slitnað upp úr viðræðum. Áttu von á að félögin sameinist einhvern tíma. "Árið 1999 tókum við stjórn félasins að okkur með það í huga að klára sameiningu félaganna og tryggja jafnframt að börnin okkar gætu æft innan göngufæris frá heimilum þeirra. Síðan þá hafa nokkarar atlögur verðið gerðar til að sameinast en alltaf strandað á skuldum, nöfnum og fleiri þáttum. Þetta er mikið hitamál fyrir þá sem hafa verið lengi hjá félögunum. Flestir okkar leikmenn eru uppaldir hjá félaginu og menn eru hræddir um að ef Leiknir sameinist ÍR muni nafn Leiknis detta upp fyrir fyrr en síðar. Það vilja menn ekki sjá og er ekkert feimnismál að úr því sem komið er viljum við ekki vera undir þeirra stjórn," segir Arnar.


Félag rekið með hagnaði

Foreldrafélag Leiknis tók við rekstri félagsins árið 1999 og síðan þá hefur reksturinn gengið mjög vel. Hann var þó kominn í mikinn halla og skuldaði félagið margar milljónir króna og stefndi í gjaldþrot. "Okkur hefur gengið vel að losna við skuldirnar. Í fyrsta lagi vegna gríðarlega öflugs sjálfboðastarfs foreldra. Í öðru lagi vegna þess að við borgum liðsmönnum okkar ekki laun. Og í þriðja lagi vegna þess að við kaupum ekki menn frá öðrum fótboltafélögum líkt og önnur félög gera. Leiknir er í dag skuldlaust félag og var hagnaður á tímabilinu 1. október 2002 til 31. desember 2003 um 3,5 milljónir króna. Við erum ánægðir með þennan árangur. Leiknishópurinn er þéttur kjarni fólks og fer stækkandi. Ástæðan er sú að við höfum alltaf haft það að markmiði að leyfa sem flestum að spila en ekki eins og mörg félög gera, einungis þeim sem keyptir eru annars staðar frá. Þetta hefur gert það að verkum að gamlir Leiknismenn verða alltaf Leiknismenn. En ekki bara þeir heldur fjölskyldur þeirra og vinir einnig. Þetta sjáum við á áhorfendahópnum sem fer einnig óðum stækkandi en sífellt oftar gerist það að völlurinn er stútfullur af áhorfendum og eru hér þegar best lætur um 700 áhorfendur," segir Arnar að lokum og er bjartsýnn á framtíð félagsins.