*

Hitt og þetta 21. nóvember 2005

Leit er annað vinsælasta viðfangsefni Netverja

Í könnun sem Pew Internet & American Life Project lét gera á dögunum kemur í ljós að notkun leitarvéla er annað vinsælasta viðfangsefni Netverja og slær nú fréttalestri við sem nú er kominn í þriðja sætið. Í fyrsta sæti með yfirburða forskot er tölvupósturinn, en notkun hans er langvinsælasta viðfangsefni Netverja í fortíð, nútíð og fyrirsjáanlegri framtíð.

Könnunin sýnir að 41% bandarískra Netverja notfærir sér nú leitarvélar í stað 30% í júlí árið 2004. Sams konar athugun á póstnotkun leiðir í ljós að 52% netverja senda og/eða móttaka póst daglega. Þá kemur í ljós að notendur leitarvéla eru þungavigtarnotendur Netsins og eru þeir yfirleitt betur tækjum búnir en meðalnotandinn. Einnig nýta þeir sér öflugri Net tengingar.

Fréttavefurinn zdnet.com greindi frá þessu.