*

Tíska og hönnun 4. janúar 2017

Leita aftur í ræturnar

Gamalgróin fyrirtæki eru sífellt að leita meira „aftur í ræturnar“ hvað vörumerkjahönnun varðar.

Pétur Gunnarsson

Vörumerki fyrirtækja eru margs konar. Þó að vörumerki (e. brand) séu ekki það sama og merki fyrirtækisins (e. logo). En þegar kemur að lógóinu sjálfu þá eru oft uppi ákveðnar tískubylgjur. Oft eru þau æði nýtískuleg og líta til framtíðar í hönnun og stíl. Fyrirtæki neyðast til þess að aðlaga sig þörfum neytenda og taka upp ný og fersk vörumerki. Því miður missa þessi vörumerki oft marks og gjörbreytast frá upphaflegri mynd sinni. Nú virðist vera sífellt algengara að stór og þekkt fyrirtæki taki upp gömul vörumerki og leiti þá í ræturnar hvað varðar vörumerkjahönnun.

Hægt er að nefna dæmi erlendis frá á borð við myndavélaframleiðandann Kodak, áfengisframeiðandann Bacardi og bandaríska bankann NatWest þessu til stuðnings. En öll þessi fyrirtæki hafa gefið gömlu vörumerkjunum sínum nýtt líf. Einnig hafa íslensk fyrirtæki á borð við 66° Norður tekið upp eldri hönnun á vörumerki til að leita aftur í söguna.

Dr. Valdimar Sigurðsson, prófessor í markaðsfræði og neytendasálfræði við Háskólann í Reykjavík, segir vörumerkjaþróun mikla list. „Það tekur mið af tíðarandanum og líftíma fyrirtækisins og hverju það vill koma á framfæri. Fyrirtækin vilja byggja traust, ég myndi túlka það þannig. Þau eru að segja „við erum búin að vera til í lengri tíma“,“ segir hann.

Breytingin á Kodak-vörumerkinu er í raun prýðilegt dæmi um fyrirtæki sem leitar aftur í ræturnar í vörumerkjahönnun. Á þessu ári tók fyrirtækið aftur upp vörumerki sem var hannað af Peter J. Oestreich árið 1971. Vörumerkið var notað í ein 35 ár og skipaði ákveðinn sess í huga fólks, áður en Kodak ákvað að breyta til. Hönnuðurinn Keira Alexandra hjá WorkOrder hönnunarstofunni endurnýjaði Kodak merkið. Hún segir, í viðtali við hönnunarsíðuna Digital Art, að málið snúist ekki endilega um fortíðarþrá. Valdimar segir í því samhengi að hann skilji það vel hvers vegna Kodak myndi vilja aftur til fortíðar, en fyrirtækið má muna fífil sinn fegurri að hans mati.

66° Norður leitar í söguna

Þegar litið er til Íslands er glögglega hægt að sjá að sama þróun hefur verið upp á teningnum hjá fyrirtækjum sem eiga langa sögu að baki og státa af þekktu vörumerki. Til að mynda þegar litið er á 90 ára afmælislínu 66° Norður, er hægt að reka augun í Kríumerki sem fyrirtækið notaði áður fyrr

Fannar Páll Aðalsteinsson, markaðsstjóri 66° Norður, segir að í ár hafi fyrirtækið leitað aftur í söguna og hluti af því hafi verið að endurvekja gamla stíla sem fyrirtækið framleiddi. „Við héldum sniðinu og útlitinu alveg óbreyttu, þar með talið lógóinu sem þá var á Kríujökkunum sem dæmi. Við uppfærðum flíkurnar í ný og betri efni en við vildum halda í útlitið og lógóið sem margir muna svo vel eftir,“ segir Fannar Páll.

Jafnframt hefur fyrirtækið unnið með eldri vörumerki og grafík á stuttermaboli síðastliðin tvö ár og Fannar segir þau finna vel hversu áhugasamt fólk er og ánægt að rifja upp gamlar minningar í gegnum þessar vörur. „Í ár höfum við verið að leita aftur í söguna og hluti af því sem við gerðum var að endurvekja gamla stíla sem við framleiddum. Við héldum sniðinu og útlitinu alveg óbreyttu, þ.m.t. logoinu sem þá var á Kríu jökkunum sem dæmi. Við uppfærðum flíkurnar í ný og betri efni en við vildum halda í útlitið og logoið sem margir muna svo vel efti,“ bætir Fannar Páll.

Nánar er fjallað um vörumerkin góðu Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast tímaritið hér.

Stikkorð: Kodak  • hönnun  • Vörumerki  • fortíðar  • 66 Norður