*

Hitt og þetta 3. september 2019

Leitin að tvífara jarðarinnar

Nýlega fannst plánetan GJ 357d, hún flokkast sem Goldilocks pláneta þar sem hún býr yfir vatni í fljótandi formi.

Lengi vel hefur fólk velt fyrir sér lífi á öðrum plánetum, en ljóst er að í kjölfarið á umræðunni um hlýnun jarðar hefur sú umfjöllun aukist til muna.

Í upphafi 10. áratugarins fóru vísindamenn að uppgötvaaðrar aðrar reikistjörnur en þær sem eru innan okkar sólkerfis. Financial Times greinir frá því að nú nýlega fannst pláneta sem býr yfir þeim spennandi eiginleika að hafa vatn í fljótandi formi. Slíkar plánetur kallast Goldilocks en hitastigið á slíkum plánetum má ekki vera of heitt né of kalt til þess að geta haft vatn í fljótandi formi. Umrædd pláneta kallast GJ 357d og er í um það bil 31 ljósári í burtu frá jörðinni, sem er talin nokkuð stutt vegalengd.

Meiri áhugi liggur hins vegar í því að skoða hvort líf þrífist á þessum plánetum og vatn er vísbending um það. Þetta er gert með sjónauka sem skynjar ljós enda, eins og margir án efa vita, flyst ljósið töluvert hraðar en hljóð, eða rétt undir 9.500 billjónir kílómetra á ári.

Lisa Kaltenegger leiðir teymi innan Carl Sagan Institute í Cornell háskólanum. Þar vinna verkfræðingar hörðum höndum að hönnun tækis sem á að auðvelda manninum að finna líf utan jarðarinnar, hvort sem um er að ræða innan okkar sólkerfis eða utan þess. Í stuttu máli er reynt að greina líf með því að mæla ákefð ljóssins í hverri bylgjulengd. Þannig má greina  hvort plánetan búi yfir súrefni, vatni og metan, en tilvist þessara efna ætti að geta gefið til kynna hvort líf sé líklegt á hverri plánetu. Greint er frá því að helsta áskorun þess verkefnis felist í því að greina þessi auðkenni frá löngum vegalengdum. Áætlað er að næsta kynslóð sjónauka geti greint sambærileg efni með meiri nákvæmni.

Ólíklegt að finna plánetu sambærilegri jörðinni

Þrátt fyrir að fjöldi plánetna sé gígantískur er ólíklegt að önnur pláneta finnist serm búi yfir sömu eiginleikum og jörðin. Til þess þurfi plánetan að hafa þróast á sama máta og jörðin gerði. Lisa segir að hún og teymið séu enn óviss um hvaða aðstæður skapi líf sem gerir verkið enn erfiðara, en þó sé vitað að efnasambönd eins og vetni, kolefni, súrefni og nitur spili þar stórt hlutverk.