*

Bílar 21. mars 2013

Lengri gerðin af Aston Martin

Gera má ráð fyrir því að vel fari um farþega í aftursætinu á nýja bílnum frá Aston Martin. Bíllinn er óvenju hár að aftan.

Á dögunum sögðum við frá nýjum Aston Martin Vanquish Volante. Nú hefur nýr bíll úr herbúðum breska lúxusbílaframleiðandans verið kynntur sem svipar til Mercedes-Benz Shooting Brake. Nafngiftin er sú sama eða Aston Martin Rapide Shooting Brake og vakti hann eðlilega mikla athygli þegar hann var frumsýndur á bílasýningunni í Genf á dögunum.

Þetta er reyndar ekki í fyrsta sinn sem Aston Martin kemur fram með svona bíl því fyrirtækið kynnti árið 2004 svokallaðan 2+2 bíl sem byggður var á Aston Martin Vanquish. Nýi bíllinn verður með V12 vél sem skilar 470 hestöflum. Innréttingin er sérlega falleg í bílnum með tvítóna leðri.

Bíllinn er að sjálfsögðu óvenju langur, ekki síst miðað við Aston Martin, en einnig óvenju hár að aftan svo vel fari um aftursætisfarþegana. Einnig er skottið mjög stórt og þar má koma fyrir miklum farangri.