*

Bílar 1. júlí 2018

Lengri lúxusjeppi fyrir sjö manns

Nýr Lexus RX 450hL er lengri, sjö sæta og býður því upp á enn meira pláss og möguleika en hinn hefðbundni RX jeppi.

Róbert Róbertsson

Lexus lagði mikið að kynna nýja jeppann í Sviss og eins og áður leggur lúxusbílamerkið mikið upp úr lífsstílstengingu við bíla sína í kynningum fyrirtækisins. Þannig var blaðamönnum boðið í lúxus „penthouse“ íbúð efst í fallegri byggingu í Zürich þar sem kynningin á Lexus RX 450hL fór fram. Þaðan var ekið um fallegar sveitir og bæi Sviss til Luzern þar sem boðið var upp á bátssiglingu yfir Luzern vatn að Burgenstock og gist þar á glæsihóteli sem stendur efst í fjallshlíðunum fyrir ofan vatnið. Þetta er frægur staður en þarna var James Bondmyndin Goldfinger með Sean Connery tekin að stóru leyti, m.a. bílaeltingaleikir á fjallavegunum.

Þetta er fjórða kynslóðin af flaggskipi Lexus-jeppalínunnar og er mjög stór og stæðilegur. Hinn nýi Lexus RX 450hL er alls 5 metrar að lengd og 11 sentimetrum lengri en hin hefðbundna 5 farþega útgáfa RX. Nýi jeppinn hefur kraftalegar línur með stórt snældulaga grillið að framan sem er ættareinkenni Lexus bíla um þessar mundir. Línurnar eru heilt yfir nokkuð framúrstefnulegar og djarfar. Þreföld LED framljósin í L-laga formi eru lagleg og sömuleiðis breið LED afturljósin sem varpa fallegri birtu frá afturhornum jeppans að miðju afturhlerans. Innanrýmið er mjög vandað og jeppinn er vel búinn þægindum og lúxus eins og Lexus er von og vísa. Leður og viður eru áberandi í innanrýminu og gefa því virðulegan blæ. 

Klæðningin er undir áhrifum frá LFA ofurbíl Lexus. Notast er m.a. við sérstaka leysitækni til að grafa í viðinn í miðstokknum og hurðarklæðingunni. Undir sést lag úr áli. Þetta er mjög flott hönnun og nýtur sín vel. Stjórntækin eru vel sett fram og það er nóg af tökkum eins og venjan er hjá Lexus. Mér finnst það flott og minnir svolítið á flugstjórnarklefa. Það fer vel um ökumann og farþega í leðursætunum og það er meira en nóg rými fyrir alla. Plássið er mjög gott fyrir farþega og þá sérstaklega í tveimur fremstu sætaræðum þar sem fótaplássið er mjög mikið. Jafnvel í öftustu sætaröðinni er það allt í lagi fyrir þá tvo sem þar sitja. Þar fer vel um farþega og glasahaldarar eru á milli öftustu tveggja sætanna. Farangursrýmið er mjög stórt og tekur mikinn farangur. Jeppinn er með Mark Levinson hljómkerfið sem gefur mjög góðan hljóm.

Mjúkur og góður akstur

Lexus RX 450hL er Hybrid jeppi með 3,5 lítra V6 tvinnvél þ.e. með sameinaðan bensínhreyfil og rafmagnsmótor. Tvinnvélin skilar jeppanum 313 hestöflum og togið er 335 Nm. RX 450h er 7,7 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið og hámarkshraðinn er 200 km/ klst. Jeppinn er 8 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið eða 0,3 sekúndum lengur upp en hinn hefðbundni RX jeppi. Hann er 6 sekúndur úr 80 í 120 km hraða. Eyðslan í blönduðum akstri er frá 5,9 lítrum á hundraðið samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda og CO2 losunin er frá 136 g/km. Hvort tveggja er aðeins hærra en í hefðbundnum 5 sæta Lexus RX 450h enda er þessi bíll stærri og þyngri.

Nánar er fjallað um málið í Bílum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: reynsluakstur  • Lexus