*

Bílar 20. júlí 2015

Lenti í árekstri við bát á þjóðveginum

Gísli Einarsson hefur lent í ýmsu á ferðalögum sínum um landið í gegnum árin.

Gísli Einarsson er sem kunnugt er dagskárgerðar- og fréttamaður á Sjónvarpinu og ritstjóri Landans. Gísli er nýbúinn að að gera heimildarmynd um störf Landhelgisgæslunnar og flóttamenn á Miðjarðarhafinu. Gísli keyrir mikið eða um 70 þúsund kílómetra á ári að eigin sögn. Hann segir hér frá eftirminnilegum atvikum tengdum bílum. 

Hver er uppáhaldsbíllinn sem þú hefur ekið?

„Það er fyrsti bíllinn sem ég átti. Þetta var eldgamall Willys jeppi sem föðurbróðir minn átti og ég síðan eignaðist. Nú er fornbílaáhugamaður í Borgarnesi nýbúinn að gera þennan þriggja dyra jeppa upp. Það verður gaman að sjá hann aftur í fínu standi. Ef ég er heppinn þá fæ ég kannski að taka aftur rúnt á honum eftir rúmlega 30 ára aðskilnað.“

Hver er eftirminnilegasta bílferðin?

„Það var þegar ég lenti í árekstri við bát árið 2004. Ég og Freyr Arnarson vorum að taka upp fyrir Út og suður þættina. Við vorum að aka inn Eyjafjörð þegar við lentum á eftir Lödu Sport sem var með gamla kerru í afturdragi og á honum var eldgamall lítill trébátur. Vorum til móts við Keiluhöllina á Drottningarbrautinni þegar ég tek eftir því að kerran var farin að beygja í aðra átt en akstursstefna Lödunnar.

Ég sveigði til hægri út á tún og ætlaði að forða því að ég lenti á bátnum.

En það vildi ekki betur til en að kerran fór þá í sömu átt og báturinn endaði inni í bílnum sem var Daiwoo Station. Báturinn lenti rétt fyrir aftan bílstjórasætið. Það mátti litlu muna að ég fengi hann beint á mig en sem betur fer slapp þetta betur en á horfð­ist en bíllinn var úrskurður ónýtur. Ekki veit ég með bátinn. Þannig fór um sjóferð þá. Ég hitti enn fólk á Akureyri sem rifjar upp þetta sögulega umferðarslys.

Ég held að það hafi verið á þessum tímapunkti sem þeir ákváðu að sameina Sjó­slysanefnd og Umferðarstofu í Samgöngustofu.“

Nánar er spjallað við Gísla í Bílum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Bílar  • Gísli Einarsson