*

Menning & listir 26. maí 2018

Lestur Birnu í skammdeginu

Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslands sagði frá lestri sínum á sögu forvera hennar í starfi hjá gamla Íslandsbanka.

Höskuldur Marselíusarson

Viðskiptablaðið leitaði eftir því hjá íslenskum áhrifavöldum hvaða bækur hefðu staðið upp úr hjá íslenskum áhrifavöldum í vetur.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka hefur bæst í hóp þeirra áhrifamanna í íslensku viðskiptalífi sem Viðskiptablaðið hefur rætt við um hvaða bækur hafa staðið upp úr í leslistanum síðustu mánuði.

Líkt og hjá fyrri viðmælendum blaðsins kenndi ýmissa grasa og voru bækurnar æði fjölbreyttar sem rötuðu á náttborðið í vetur. Meðal þess sem Birna las um var einn helsta frumkvöðul fyrri hluta síðustu aldar.

„Sagan um fjármálamanninn Eggert Claessen þótti mér svo sannarlega áhugaverð enda mikið umbreytingartímabil eftir fyrri heimsstyrjöldina. Eggert var vissulega umdeildur maður en það er óhætt að segja að hann hafi haft kjark og þor til að takast á við stór og umfangsmikil verkefni enda frumkvöðull Eimskipafélagsins. Hann var jafnframt umsvifamikill í Milljónarfélaginu og fossafélaginu Títan,“ segir Birna.

„Sagan fannst mér þó ekki síst áhugaverð fyrir sögu hans sem bankastjóra Íslandsbanka eldri í tæpan áratug. Hann hafði áður verið driffjöður í því að stofna nýjan banka sem yrði undanþeginn öllum opinberum gjöldum og sköttum líkt og hinir bankarnir. Ekkert varð úr þeirri ráðagerð en í framhaldi var honum boðin bankastjórastaða í Íslandsbanka. Það var þó ekki þrautalaust enda varð kreppa úti í heimi og verðfall á útflutningsvörum. Eggert fór því víða um til að leita að fjármagni og það er áhugavert að bera saman hvað er líkt í dag með bankarekstri og á þeim tíma.“

Um jólin las Birna svo bókina Rétt undir sólinni, ferðasögu Halldórs Friðriks Þorsteinssonar frá Afríku. „Mér fannst bókin sérlega áhugaverð, skemmtileg blanda af mikilvægum fróðleik og persónulegri upplifun Friðriks. Þetta vakti aldeilis meiri áhuga hjá mér á ferðalögum og ég hef meira að segja látið mig dreyma um að ganga sjálf upp á Kilimanjaro, sjáum hvort ég láti verða af því – annars les ég bara bókina aftur!“

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is