*

Menning & listir 14. desember 2019

Lestur Eddu og Rögnu í skammdeginu

Ragna Árnadóttir og Edda Hermannsdóttir sögðu frá því hvaða bækur stóðu upp úr á leslistanum á árinu sem er að líða.

Höskuldur Marselíusarson

Þegar skammdegið hellist yfir og stormarnir geisa úti er fátt betra en að sitja í hlýjunni heima við og lesa góða bók. Viðskiptablaðið ræddi við þær Eddu Hermannsdóttur, markaðs- og samskiptastjóra Íslandsbanka,og Rögnu Árnadóttur, skrifstofustjóra Alþingis, um hvað hefði staðið upp úr á leslistanum hjá þeim undanfarin misseri.

Teiknimynda- og ævisögur

Ragna Árnadóttir, skrifstofustjóri Alþingis, er mikill lestrarhestur og forfallinn aðdáandi að teiknimyndasögum sem hún segist ekki geta látið eiga sig. „Af áhugaverðum og oft átakanlegum ævisögum í þeim geira má nefna Persepolis eftir Marjane Sartapi og The Arab of the Future eftir Riad Sattouf,“ segir Ragna sem einnig nefnir hefðbundnari ævisögur, þar á meðal bók Ásdísar Höllu, Tvísaga.

„Ég dáist að hugrekki hennar og ritstíl. Síðan rakst ég fyrir nokkrum árum á bók eftir norskan höfund í enskri þýðingu í Eymundsson. Mér fannst það óvenjulegt og ákvað að kaupa bókina. Um var að ræða fyrsta bindi af ævisögu hins umdeilda og umtalaða Karl Ove Knausgaard, sem þurfti heil sex bindi til að lýsa ævi sinni og er þó fæddur árið 1967.

Titillinn, Min kamp, ætti að gefa tóninn en Karl Ove gerir í því að hlífa ekki nokkrum manni og síst sjálfum sér, en hann virðist fá eitthvað út úr því að lýsa sínum auðvirðilegustu augnablikum og hugsunum, og reyndar vina sinna, fjölskyldu og ástkvenna líka. Að öllu gamni slepptu er frásögnin djúp, einlæg og einstaklega áhugaverð því hlutirnir eru ekki mikið fegraðir, ef eitthvað. Karl Ove þykir brautryðjandi í ævisagnaritun og kannski gætir áhrifa hans hér á landi líka.“

Nike og tilfinningagreind

Hjá Eddu Hermannsdóttur, markaðs- og samskiptastjóra Íslandsbanka, stendur bókin Start with Why eftir Simon Sinek upp úr þessa dagana. „Hann skrifar mjög skemmtilega um það í þessari bók hvers vegna við gerum hlutina og fær mann til að hugsa þá frá rótinni. Það er svo algengt að ræða um hvað og hvernig við gerum hlutina og ef við horfum til dæmis á markaðsefni fyrirtækja þá er hvað og hvernig mjög algengt á meðan skilaboð fyrirtækja um hvers vegna þau gera eitthvað skilja oftar meira eftir sig,“ segir Edda.

Hún segir mörg skemmtileg dæmi tekin í bókinni um það, til dæmis um bæði Apple og Nike. „Mörg fyrirtæki gera þetta vel í dag þar sem þetta tengist mikið notendaupplifun viðskiptavina, enda er þessi spurning um hvers vegna það sem mun skipta miklu máli þegar kemur að aðgreiningu á markaði.“

Eddu þykir alltaf gaman að grípa í Harvard Business Review bækurnar en þar af sé bókin um tilfinningagreind, On Emotional Intelligence, í miklu uppáhaldi

„Viðfangsefnið er mjög viðeigandi í hröðu atvinnulífi og mikilvægur þáttur í leiðtogafærni. Greinar Daniel Goleman eru sérstaklega skemmtilegar um það hvað skilgreinir góðan leiðtoga og hvaða þættir það eru sem gera hæfa og góða stjórnendur að framúrskarandi stjórnendum. Þá er meðal annars fjallað um þætti eins og félagslega hæfni, samkennd og hvatningu í stjórnun,“ segir Edda sem grunar að slíkir hæfileikar séu meðfæddir en í bókinni séu samt góðar æfingar fyrir þá sem vilji þróa þá áfram.

„Þá er líka talað um hvernig hinn staðlaði grimmi yfirmaður sem stjórnar með látum sé á undanhaldi á meðan nútímalegri stjórnunarhættir séu að ryðja sér til rúms þar sem tilfinningagreind er algjört lykilatriði. Þessi hæfni hefur líklegast aldrei verið jafn mikilvæg á tímum þar sem stjórnendur standa frammi fyrir gríðarlegum breytingum þar sem störf eru mörg hver að tæknivæðast og sjálfvirknivæðast.“

Loks nefnir Edda bókina Shoe Dog, sögu stofnanda Nike, Phil Knight, en hún fylgdi  henni í sumarfríið fyrir ári og en er enn minnisstæð. „Þrautseigja og ástríða fyrir verkefninu lýsir vel hugarfari fyrstu starfsmanna Nike. Maður fyllist innblæstri við lestur bókarinnar og erfitt er að slíta sig frá henni. Þetta er í grunninn skemmtileg ástarsaga, nema í þessu tilfelli milli manns og skópars,“ segir Edda

„Bókin er skemmtilega skrifuð frumkvöðlasaga um allt frá því að hann byrjaði að selja skó úr skottinu á bílnum sínum og fram að skráningu félagsins á markað. Það gengur mikið á í bókinni og áhugavert að lesa um allar þær hindranir sem urðu á vegi hans, skrautleg samskipti við japanskar verksmiðjur, fjármögnunarferlið, misheppnaðir skór og nafnið á fyrirtækinu, sem var mikil fljótfærnisákvörðun en hluti af því sem gerði það að þeim skórisa sem allir þekkja í dag.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.