*

Menning & listir 27. maí 2018

Lestur Finns í skammdeginu

Finnur Oddsson forstjóri Origo, áður Nýherja, las um Bezos og Musk, sálfræðinga með hagfræðiverðlaun og um Gráa manninn.

Viðskiptablaðið leitaði eftir því hjá íslenskum áhrifavöldum hvaða bækur hefðu staðið upp úr hjá íslenskum áhrifavöldum í vetur.

Þau Birna Einarsdóttir, forstjóri Íslandsbanka, og Finnur Oddsson, forstjóri Origo, hafa bæst í hóp þeirra áhrifamanna í íslensku viðskiptalífi sem Viðskiptablaðið hefur rætt við um hvaða bækur hafa staðið upp úr í leslistanum síðustu mánuði. Líkt og hjá fyrri viðmælendum blaðsins kenndi ýmissa grasa og voru bækurnar æði fjölbreyttar sem rötuðu á náttborðið í vetur.

Tæknin nýtt til að kynnast tækniforkólfum

Forstjóri Origo, áður Nýherja, Finnur Oddsson segist almennt vera allt of latur til lesturs. „En með hjálp Audible þá er hægt að komast í gegnum ansi margar bækur í bílnum eða úti á hlaupum,“ segir Finnur sem segir fyrri hluta vetrar hafa einkennst af lestri ævisagna.

„Fyrst voru það sögur af Elon Musk og Jeff Bezos í bókunum Elon Musk: Tesla, SpaceX, and the Quest for a Fantastic Future og The Everything Store: Jeff Bezos and the Age of Amazon um tvo stórhuga menn sem báðir hafa náð mögnuðum árangri og raun gerbreytt heimsmynd okkar, því hvernig við horfum á bíla eða geimferðir, verslunarhætti eða kaup á upplýsingatækniþjónustu.

Þá tóku við sögur tveggja fyrrverandi starfsmanna start-up og tæknifyrirtækja í Bandaríkjunum, þeirra Dan Lyons hjá Hupspot, í Disrupted: Ludicrous Misadventures into the Tech StartUp Bubble og Antonio Garcia Martinez hjá Facebook í Chaos Monkeys: Obscene Fortune and Random Failure in Silicon Valley.

Frásagnarstíll beggja höfunda er bráðskemmtilegur, þannig að erfitt er að leggja bækurnar frá sér.  Myndin sem þeir draga upp af fyrirtækjunum, sem við þekkjum flest til og margir dást að, er svo allt í senn, satírísk, kaldranaleg og kaldhæðin, eiginlega alveg á skjön við þá ímynd sem fyrirtæki vilja standa fyrir. Hvor er rétt, ímyndin eða frásögn höfunda, er erfitt að segja til um. Líklega hvorug, en eitthvað örugglega til í hvoru tveggja … og báðar bækurnar stórskemmtilegar.“

Finnur les, eða réttara sagt hlustar, þó ekki eingöngu á ævisögur. „Inn á milli þá hef ég gripið í Grey Man bækur Marks Greaney um spæjarann og leigumorðingjann Court Gentry.  Dálítið ávanabindandi, enda grái maðurinn svo snjall að hann hefði getað pakkað sjálfum Jason Bourne saman með vinstri, hvar og hvenær sem er,“ segir Finnur en ekki voru eingöngu forstjórar fyrirtækja í ævisagnalistanum hans.

„Sálfræðingarnir Daniel Kahneman og Amos Tversky eru þekktastir fyrir að uppgötva hvernig fólk gerir kerfisbundnar villur í hugsun, sem víkur frá rökhugsun út frá líkindum eða tölfræði. Rannsóknir sem þeir fengu síðar Nóbelsverðlaun í hagfræði fyrir.

Bókin The Undoing Project: A Friendship That Changed Our Minds, eftir Michael Lewis, gefur ágætt ágrip af rannsóknum þeirra félaga en segir um leið heillandi sögu af vinskap og samstarfi sem er líklega einstakt í sögu sálfræðinnar og margra annarra vísindagreina.“

Stikkorð: Jeff Bezos  • Finnur Oddsson  • Elon Musk  • bækur  • Origo