*

Menning & listir 15. desember 2019

Lestur Finns og Sigurðar í skammdeginu

Finnur Árnason og Sigurður Hannesson sögðu frá hvaða bækur hefðu staðið uppúr á síðustu misserum.

Höskuldur Marselíusarson

Viðskiptablaðið ræddi við þá Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins og Finn Árnason, forstjóra Haga um hvaða bækur hefðu staðið uppúr þegar skammdegið var nýtt til lestrar, en eins og sagt var frá í gær var einnig rætt við þær Eddu Hermannsdóttur samskipta- og markaðsstjóra Íslandsbanka og Rögnu Árnadóttur skrifstofustjóra Alþingis.

Atómstöðin og atómljóð

Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir að kalla megi Atómstöð Halldórs Laxnes bók þessa hausts hjá sér. „Við hjónin skráðum okkur á námskeið hjá Endurmenntun HÍ, sem hét Atómstöðin – endurlit, en umfjöllunarefni námskeiðsins var samnefnt leikrit sem nú er sýnt í Þjóðleikhúsinu,“ segir Finnur sem las bókina sem var óhreyfð í hillu í áratugi samhliða.

„Þessi mikli áhugi á Atómstöðinni nú á rætur að rekja til þess að dóttir okkar, Ebba Katrín, leikur nú Uglu.  Sýningin hefur fengið frábæra dóma og það var skemmtilegt að upplifa verkið samhliða þessu fræðandi námskeiði sem fór fram bæði í skólanum og Þjóðleikhúsinu.“

Finnur hefur einnig verið að lesa ljóðabækur undanfarið þar á meðal bók Bubba Morthens, Velkomin. „Hún er vel skrifuð og á erindi, eins og fyrri ljóðabækur hans. Myndræn, mild og full af kærleika, en á sama tíma fullkomlega óvægin. Síðan las ég ljóðabók eftir bandaríska ljóðskáldið Billy Collins, Questions about Angels og einnig ljóðasafn sem hann tók saman og heitir Poetry 180, “ segir Finnur.

„Það er svo ekki oft sem ég les bækur tvisvar með stuttu millibili, en ég las Ungfrú Ísland, eftir Auði Övu um síðustu jól. Auður fékk síðan nýlega verðlaun í Frakklandi fyrir þessa bók og ég veit ekki hvað gerðist, en ég er aftur byrjaður að lesa Ungfrú Ísland.“

Auk skemmtiefnis les Finnur töluvert af fagefni og nefnir hann líkt og Edda HBR´s must read greinasafnið. „Ég hef frá því í vor verið að lesa greinar um annars vegar stjórnun og hins vegar stefnumótun. Einnig las ég litla bók eftir Peter Drucker sem heitir Managing Oneself,“ segir Finnur sem jafnframt nefnir öðruvísi fræðiefni.

„Síðasta vetur uppgötvaði ég síðan nýja leið, sem er kennsla eða nokkurs konar fyrirlestrar á netinu, svokölluð meistaranámskeið. Þar hef ég keypt aðgang að efni sem er á mjög breiðu sviði og ég hef ótrúlega gaman af. Síðast horfði ég á Bob Iger, forstjóra Disney segja frá eigin reynslu, hvernig hann stjórnar og hvaða ráð hann gefur stjórnendum. Þar er líka fullt af efni sem tengist áhugamálum mínum, eins og um ýmsa tónlistarmenn, ljósmyndara og flott matreiðslufólk. Mér finnst gott að einblína ekki á mitt fag, heldur sækja þekkingu sem víðast og í efni sem mér finnst fjölbreytt, skemmtilegt og áhugavert. Lærdómurinn kemur ekki bara úr fagbókum.“

Picasso, tækni og einræði

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, las nýverið minnisbók nafna síns Pálssonar sem varð á vegi hans. „Sigurður rifjar meðal annars upp árin eftir stúdentspróf og segir á einstaklega myndrænan og skemmtilegan hátt frá veru sinni í Frakklandi seint á sjöunda áratug síðustu aldar,“ segir Sigurður um Minnisbók Sigurðar Pálssonar.

„Hinn lifandi stíll höfundar heldur manni við efnið og veitir innblástur jafnt sem kærkomna hvíld frá hversdaglegu amstri. Í bókinni segir einnig frá áhugaverðum kynnum seinni eiginkonu listmálarans Picasso, Jaqueline Picasso, og þeirra hjóna Sigurðar og Kristínar.“

Þegar bókin The Fourth Industrial Revolution eftir Klaus Schwab, stofnanda Alþjóðaviðskiptaráðsins (e. World Economic Forum) kom út vakti hún það mikla athygli að hún bjó til nýtt hugtak sem náð hefur fótfestu í almennri umræðu.

„Bókin fjallar um þær tækniframfarir sem nú eiga sér stað og þær umbreytingar sem þessar framfarir geta valdið. Tæknin sjálf er heillandi og margþætt, snýst um sjálfvirknivæðingu, gagnagnótt og gervigreind svo eitthvað sé nefnt og hagnýtingar þess í daglegu lífi,“ segir Sigurður og telur upp dæmi eins og deilihagkerfið og að skynjarar, eins og snjallúr, safna gögnum sem vinna má úr á ýmsan hátt.

„Þetta felur í sér áskoranir fyrir fyrirtæki sem þurfa að bregðast við til þess að dragast ekki aftur úr í samkeppni og fyrir stjórnvöld sem þurfa að tryggja að regluverkið haldi í við þróunina. Einnig mun þetta hafa áhrif á almenning þar sem störf munu breytast heilmikið á næstu árum og áratugum.“

Loks nefnir Sigurður bókina On Tyranny – Twenty Lessons from the Twentieth Century eftir Timothy Snyder. „Bókin hefur verið þýdd og gefin út á íslensku undir heitinu Um harðstjórn – tuttugu lærdómar sem draga má af tuttugustu öldinni. Harðræði í ýmsum myndum hefur stungið upp kollinum með reglubundnu millibili. Mannkynssagan er heillandi og af henni má sannarlega læra margt, ekki síst hvaða hættur þarf að forðast og hvernig mætti gera það.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.