*

Hitt og þetta 30. júní 2018

Lestur Helga á vordögum

Uppáhaldsrithöfundur forstjóra Regins skrifar um viðkvæm og erfið viðfangsefni en mest les hann fagtímarit um fasteignir.

Höskuldur Marselíusarson

Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins var meðal þeirra sem ræddi við Viðskiptablaðið um hvaða bækur höfðu mest áhrif á sig af þeim sem rötuðu á náttborðið síðustu mánuði. Líkt og hjá fyrri viðmælendum blaðsins voru bækurnar æði fjölbreyttar sem og gluggað var í ýmislegt fleira en hefðbundnar bækur.

Undirgefni og þróun í fasteignum

Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, segist ekki vera mikill bókaormur þótt hann lesi töluvert.

„Ég hef mjög gaman af að fylgjast með og stúdera hvað er að gerast í kringum okkur í verslana-, dægur-,  og viðskiptalífi. Ég er sérstaklega hrifinn af dönsku efni enda er ég menntaður þar. Ég hef lengi verið í dönskum regnhlífasamtökum þeirra sem starfa á sviði fasteignaumsýslu sem gefa út gríðarlega mikið og gott rannsóknarefni,“ segir Helgi sem segist jafnframt fylgjast með útgáfu á vegum eigenda tímaritsins Monocle.

„Þeir hafa fjallað mikið um Ísland og hafa verið hér á ferð á vegum Pennans – Eymundsson, Í þessum tímaritum og útgáfum hef ég t.d. fundið umfjöllun um þróun og breytingar í verslanamiðstöðvum í Bandaríkjunum og Rússlandi, umfjöllun um endurskipulagningu á afþreyingarmiðstöðvum á hinum ýmsu stöðum og þess háttar.“

Utan þess sem tengist starfinu les Helgi þó einnig bækur um sögu og samfélag, en nú er hann að lesa bók Björns Jóns Bragasonar, Í liði forsætisráðherra eða ekki, sem hann líkir við bókina Rosabaugur yfir Íslandi eftir Björn Bjarnason. Að síðustu nefnir hann svo uppáhaldsrithöfund sinn.

„Ég er nýbúinn að leggja frá mér eina mögnuðustu bók sem ég hef lesið en það er bókin Undirgefni eftir Frakkann Michel Houellebecq. Þessi höfundur skrifar bækur sem taka á og fjalla um mörg viðkvæm og erfið viðfangsefni í samfélaginu á þann hátt að hann, oft á tíðum, algerlega ofbýður lesandanum,“ segir Helgi.

„Þessi bók gerist í stuttri framtíð og lýsir því þegar frambjóðendur múslimaflokks eru smám saman að komast til valda í Evrópu og breytingunum sem á eftir fylgja. Höfundurinn hefur skrifað aðrar frábærar bækur, s.s. Áform og Öreindirnar, sem hafa hneykslað og ögrað. Þetta er minn uppáhaldsrithöfundur fyrir utan skýrsluhöfundana hjá DFM netværk.“