*

Hitt og þetta 1. júlí 2018

Lestur Margrétar Sanders á vordögum

Formaður Samtaka verslunar og þjónustu segir frá áhrifamikilli bók um hörmungar sovétsins sem og góðri bók fyrir stjórnendur.

Höskuldur Marselíusarson

Margrét Sanders, formaður SVÞ og ráðgjafi hjá Strategíu, var meðal þeirra sem ræddi við Viðskiptablaðið um hvaða bækur höfðu mest áhrif á sig af þeim sem rötuðu á náttborðið nú í vor. Líkt og hjá fyrri viðmælendum blaðsins voru bækurnar æði fjölbreyttar sem og gluggað var í ýmislegt fleira en hefðbundnar bækur.

Óperusöngkona og hörmungar Sovétsins

Margrét Sanders, formaður SVÞ, oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ og liðsmaður Strategíu, segir fyrst frá þeirri bók sem hafi haft mest áhrif á hana í gegnum árin.  

„Ég hef lesið hana nokkrum sinnum, en það er ævisaga Gaíönu Vishnevskaja, rússneskrar óperusöngkonu. Í bókinni segir Galíana frá ævi sinni frá barnæsku, uppvexti og starfi alveg þar til hún og eiginmaður hennar eru svipt sovéskum ríkisborgararétt árið 1978,“ segir Margrét.

„Ég tel mig þekkja nokkuð vel sögu Sovétríkjanna en við lestur þessarar bókar fór ég að skilja söguna á allt annan hátt, hörmungarnar hjá almennum fjölskyldum og misskiptingin sem var þar við lýði. Galíana gefur innsýn í þá ömurlegu eymd sem almúginn lifði en hún lifir svo seinna betra lífi í gegnum listina.

Það var þó ekki bara það sem hefur áhrif á mann heldur hvernig Galíana lýsir vantrú fólks til hvers annars, allir voru að njósna um alla og traustið var ekkert á milli manna. Ef einhver vogaði sér að segja eitthvað slæmt um sovéska kerfið var alltaf einhver uppljóstrari nálægt og afleiðingarnar skelfilegar. Oftar en ekki voru uppljóstrararnir bestu vinir, samstarfsmenn og jafnvel nánir ættingjar.“

Einnig nefnir Margrét bók sem hún segir mjög góða fyrir nútíma stjórnendur. „Á náttborðinu er ég með bókina Internet of Things (IoT): Digitize or Die eftir Nicolas Windpassinger. Í raun keypti ég hana bara vegna titilsins og umsagna en hún hefur algerlega staðist væntingar,“ segir Margrét.

„Þarna er ótrúlega skýr mynd dregin upp um stafrænu byltinguna og hvernig best er að innleiða breytingarnar. Áherslan er ekki bara innan ákveðinna sviða heldur heilt yfir og þar skiptir menning innan fyrirtækjanna miklu og heildarstefnumótun. Skemmtilegir frasar eru nefndir sem fyrirtæki nota sem afsökun um að breytast ekki svo sem: „við höfum unnið svona síðustu ár og engin þörf á að gera breytingar“, „þessi tækni á ekki við okkur“, „við höfum nægan tíma“ og þannig má áfram telja.“